Skoðun

Hagfræði 101: Kvikmyndagerð

Guðmundur Edgarsson skrifar
Að undanförnu hafa ýmsir stigið fram og gagnrýnt niðurskurð á fjárframlögum ríkisins til íslenskrar kvikmyndagerðar. Rauði þráðurinn í málflutningi þeirra er sá að ríkið sé að tapa peningum á því að styrkja ekki þessa atvinnugrein því ríkið fái til baka margfalda þá upphæð sem það leggur til. Þetta sé því spurningin um debet og kredit, og því beri ríkinu að styrkja kvikmyndagerð í landinu a.m.k. með sama krafti og áður.

En hví þá ekki að gíra verulega upp framlög ríkisins til kvikmyndagerðar fyrst margfeldisáhrifin eru jafn mikil og haldið er fram? Áður en við fögnum þessari hugmynd eins og um olíufund væri að ræða skulum við staldra við eitt augnablik.

Öll fyrirtæki skapa verðmæti

Vel má vera að hver króna sem ríkið lætur af hendi til kvikmyndagerðar á Íslandi skapi verðmæti fyrir þjóðarbúið. Það er ekki kjarni máls. Mergur málsins er einfaldlega sá að hið sama gildir um öll fyrirtæki sem eru rekin réttum megin við núllið. Öll skapa þau verðmæti vel umfram þau sem eingöngu nýtast eigendum eða viðskiptavinum þeirra. Hótel og veitingastaðir draga að erlenda ferðamenn og auka líkurnar á að þeir dveljist hér lengur en ella væri.

Almenningur nýtur svo góðs af því t.d. í formi aukinna gjaldeyristekna þjóðarbúsins. Tölvufyrirtæki hanna og selja hugbúnað sem eykur skilvirkni og þjónustu í atvinnulífinu sem aftur leiðir til aukinnar verðmætasköpunar í þjóðfélaginu almennt. Í stuttu máli, ef markaður er fyrir viðkomandi vöru eða þjónustu og fyrirtækin eru skikkanlega rekin á annað borð, þá er það til hagsbóta fyrir þjóðfélagið í heild burtséð frá því á hvaða sviði þau starfa. Því er vandséð að verðmætasköpun ein og sér réttlæti að tilteknar atvinnugreinar eins og kvikmyndagerð eigi frekar tilkall til reglubundinna fjárframlaga frá ríkinu en einhverjar aðrar.

Mótframlag kvikmyndageirans

Oft heyrast rökin fyrir fjárframlögum ríkisins í kvikmyndagerð að annars fái greinin ekki mótframlag erlendis frá, t.d. úr evrópskum kvikmyndasjóðum. En hið sama má segja um fjölmörg önnur verkefni á markaði. Erlendir fjárfestar eru til í slaginn ef tryggð er fjármögnun innanlands. Eiga þá öll fyrirtæki sem háð eru erlendri fjárfestingu að njóta sérstakra niðurgreiðslna úr almannasjóðum af þeim sökum? Allir sjá að slíkt væri óheillaráð. Því þarf sterkan rökstuðning fyrir því að kvikmyndagerð eigi fremur rétt á slíkri fyrirgreiðslu en aðrar atvinnugreinar.

Hinn ósýnilegi fórnarkostnaður

En hvers vegna er varasamt að niðurgreiða eina atvinnugrein, í þessu tilfelli kvikmyndagerð, en ekki aðra? Ástæðan er sú, að með ríkisstyrkjum fær kvikmyndagerðin forskot til vaxtar á kostnað annarra atvinnugreina sem ekki fá slíkan stuðning. Hver þúsund kall sem rennur úr almannasjóðum til kvikmyndagerðar gerir fyrirtæki í öðrum greinum fátækari sem því nemur. Það gerist í stuttu máli með tvennum hætti.

Annars vegar þannig að fyrirtækin þurfa að borga til kvikmyndagerðar þennan þúsund kall með sköttum sínum sem annars rynni í eigin rekstur til vaxtar og viðgangs. Hins vegar leiða slíkir ríkisstyrkir til þess að neytendur hafa úr minnu að spila þar sem búið er að ráðstafa þúsund kalli af þeirra launum til kvikmyndagerðar að þeim forspurðum. Afleiðingin er sú að neytendur kaupa minna af vöru og þjónustu af hinum fyrirtækjunum. Hluti þeirra sjálfsaflafjár nýtist því síður en ella og verðmæti glatast.

Öll fyrirtæki sitji við sama borð

Til að fyrirbyggja mismunun á milli atvinnugreina stendur valið því um tvennt. Annars vegar að styrkja allar atvinnugreinar jafnt með sífelldum framlögum úr ríkissjóði fyrir annarra manna pening. Hins vegar að lækka skatta sem nemur öllum styrkjunum og eftirláta fagfólki á markaði að fjárfesta fyrir eigin pening í þeim atvinnugreinum sem það hefur mesta trú á.

Fyrri leiðin byggir á síaukinni skattheimtu og stöðugum inngripum stjórnmálamanna og embættismanna í atvinnulífið eftir leiðum áætlunarbúskapar; hin síðari reiðir sig á markaðslausnir, þ.e. á raunverulegan vilja kaupenda og seljenda eftir lögmálinu um framboð og eftirspurn. Sjálfur hallast ég að síðarnefndu leiðinni, þ.e. að láta atvinnulífið í friði og leyfa hlutunum að hafa sinn gang.






Skoðun

Sjá meira


×