Skoðun

Launin eru ekki boðleg

Lis Ruth Klörudóttir skrifar
Í kjölfar baráttufundar kennara sem haldinn var 25. september síðastliðinn fóru margar hugsanir í gegnum höfuðið á mér. Eftir þennan fund gekk ég verulega stolt út. Ég fór að hugsa um allt það sem gerir kennarastarfið spennandi, gefandi og skemmtilegt.

Á hverjum degi mætir maður nýjum krefjandi verkefnum og það gerir starfið svo eftirsóknarvert. Allt snýst þetta um að leiðbeina og vinna með börnunum okkar sem erfa eiga landið. Það veitir mér ótrúlega mikla gleði þegar ég sé nemendur mína þroskast og dafna og veit jafnframt að kannski eigum við kennarar einhvern þátt í því að þeim farnast vel á lífsleiðinni. Unga fólkið okkar er það verðmætasta í okkar samfélagi og okkar framtíð. Okkur ber að hlúa vel að því.

Ég ætla ekki að segja að það sé alltaf auðvelt að vera kennari. Daglega tekst ég á við ný verkefni með frábæru samstarfsfólki og við reynum að finna lausnir saman. Oft er talað um að fólk sem vinnur við kennslustörf sé hugsjónafólk og það get ég svo sannarlega staðfest þar sem ég umgengst þetta fólk á hverjum degi.

Varla eru það launin sem draga fólk að þessum störfum.

Minna virði

Hvers vegna er það svo allt annar handleggur þegar starfið felst í umsýslu peninga eða verðbréfa? Það er einkennilegt að í okkar samfélagi virðist það vera metið meira að verðleikum, að passa upp á peninga en börnin okkar.

Kennaranám er í dag orðið fimm ára háskólanám. Hvers vegna er það minna virði en til dæmis viðskiptafræði?

Þegar ég hóf mitt nám vissi ég alltaf að ég yrði ekki rík en ég vissi að ég væri að fara út í eitthvað sem ætti við mig og mér þætti skemmtilegt.

Það hvarflaði hins vegar ekki að mér að launin yrðu svo lág að ég gæti ekki framfleytt mér og börnum mínum!

Hvers vegna er mín menntun minna virði en menntun tengt viðskiptum og peningum? Umsóknum í almennt kennaranám hefur snarlega fækkað. Við vitum öll hvers vegna. Launin eru ekki boðleg nokkrum manni eftir fimm ára nám í háskóla. Viljum við missa allt okkar velmenntaða og góða fagfólk úr skólunum yfir til viðskipta- og fjármálafyrirtækja?

Eiga börnin okkar ekki rétt á góðri menntun? Þessu þarf að breyta snarlega.

Oft heyrir maður kennara tala um að þeir skammist sín fyrir að nefna þá upphæð sem þeir fá í launaumslaginu um hver mánaðamót. Með réttu ættu þeir sem borga okkur launin að skammast sín.




Skoðun

Sjá meira


×