Innlent

Fé til fornleifafræði skorið niður um 70%

Svavar Hávarðsson skrifar
Ármann nefnir uppgröft á Skriðuklaustri sem vel heppnað verkefni sem skilað hefur mikilli vitneskju og laðar nú að fjölmarga ferðamenn.
Ármann nefnir uppgröft á Skriðuklaustri sem vel heppnað verkefni sem skilað hefur mikilli vitneskju og laðar nú að fjölmarga ferðamenn. fréttablaðið/valli
Fjármagn til fornleifarannsókna hefur verið skorið niður um rúmlega 70% frá árinu 2007. Fornleifafræðingar lýsa yfir þungum áhyggjum af þróun mála og telja að vegið sé að fræðastarfi í fornleifafræði á Íslandi.

Ármann Guðmundsson, formaður Félags fornleifafræðinga, spyr hver skilaboð stjórnvalda séu í ljósi þessa, þótt allir séu meðvitaðir um stöðu þjóðarinnar í fjárhagslegu tilliti. Hann segir að ekki verði við svo búið lengur ef halda á lífi í greininni. Ármann segir að kannski sé því svo farið að fólk telji að fornleifafræði snúist bara um fjárútlát ríkissjóðs en hafa beri í huga þau verðmæti sem verða til. Ekki síst nýir ferðamannastaðir sem hafa verið byggðir upp í kjölfar rannsókna, sem séu til vitnis um blómaskeið fornleifafræði árin eftir aldamótin. Það blómaskeið eigi rætur sínar í úthlutunum Kristnihátíðarsjóðs og upphafi kennslu í fornleifafræði við Háskóla Íslands.

„Við förum ekki fram á að stjórnvöld veiti fé í þetta hugsunarlaust en það er verið að byggja upp menningarstarfsemi. Það á svo líka við um þetta eins og annað að fólk sem er komið með ágætis reynslu þarf að leita annað eftir vinnu,“ segir Ármann. Hann starfar ásamt fleiri íslenskum kollegum sínum við fornleifarannsóknir í Noregi.

Spurður hvort hægt sé að hefja nýjar rannsóknir og ljúka þeim sem eru hafnar í ljósi fjárveitinganna nú segir hann það mjög erfitt.

Fornminjasjóður [áður Fornleifasjóður] er eini sjóðurinn sem er eyrnamerktur fornleifarannsóknum en hlutverk hans var aukið til muna á síðasta ári. Samkvæmt nýframkomnu fjárlagafrumvarpi verða fjárframlög til sjóðsins tæplega 32 milljónir króna á næsta ári. Um er að ræða 25 prósenta niðurskurð á framlögum á milli ára. Þegar best lét voru 122 milljónir króna til skiptanna árið 2008.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×