Skoðun

Hávaði – málröskun – ADHD*

Dr. Valdís Ingibjörg Jónsdóttir skrifar
Þegar kemur að ADHD verður að taka inn í umræðuna dvöl barna í hávaða.

Margar rannsóknir hafa sýnt skaðsemi hávaða fyrir vitsmunaþroska, einbeitingu, heyrn, málþroska, minni, námsgetu, lestrarnám, félagatengsl, rödd, svefn og almenna líðan barna.

Árið 2012 dvöldu um 83 prósent barna á aldrinum eins til fimm ára á leikskólum, langflest þeirra daglangt. Á þessum aldri taka börn út málþroska og því mikilvægt að þau geti heyrt og fylgst með því sem sagt er. Í leikskólum hefur hávaði verið mældur það hár að hann er löngu kominn yfir þau viðmiðunarmörk sem við, þessi fullorðnu, setjum sem algert skilyrði fyrir því að geta einbeitt okkur eða átt í samræðum.

Mannsröddinni eru takmörk sett. Þar sem raddmál er samsetning talhljóða sem drukkna og bjagast í hávaða segir það sig sjálft að börnin eiga það á hættu að heyra ekki rétt það sem er sagt. Þar með er hætta á að hlustunarlöngunin þverri. Og hvað á þá að gera? Hvað myndum við sjálf gera ef við gætum ekki hlustað á talað mál okkur til skilnings? Ætli flestir myndu ekki láta sig hverfa af vettvangi. Það geta börn ekki. Þau verða að dveljast í þessum hávaða og eiga að hlusta og einbeita sér. Þar með er hætt við að athygli, einbeiting, áhugi og úthald þverri. Sem sagt einkenni ADHD.

Vandamálin halda áfram

En eru þetta ADHD-börn? Ekki samkvæmt skilgreiningu um taugafræðilega röskun. Slíkt gildir ekki um málröskunarbörn sem hafa ekki náð að þroska með sér mál. Þar er orsök athyglis- og einbeitingarskorts að finna í lélegri málgetu. Getur það verið að börn sem hafa ekki náð að þroska með sér hlustun og mál séu greind með ADHD og jafnvel sett á lyf? Rannsóknir hafa sýnt að lyf gagnast ekki þessum hópi barna.

Ef börn hafa ekki náð að taka út málþroska á fyrstu æviárum halda vandamálin áfram upp í grunnskóla þar sem þau lenda í erfiðleikum með að fylgjast með kennslu. Þar hefur hávaði einnig mælst of mikill fyrir einbeitingarvinnu og hlustun, reyndar svo mikill að í sumum skólum fá nemendur afhentar heyrnarhlífar.

Börnum með málraskanir er þar sérstaklega hætt og þeim fer fjölgandi frekar en hitt. Það er háalvarlegt. Menntakerfi okkar er metnaðarfullt en það er ekki nóg ef ekki er hægt að fylgja áætlunum eftir vegna skorts á peningum. Oft eru of mörg börn með ólíkar þarfir sett saman í eina kennslustofu. Það getur skapað mikinn hávaða, mikið áreiti og að kennari nái ekki að sinna sínu starfi sem skyldi og hann vildi.

Hér verður að snúa þróun við. Það þarf að skapa viðunandi hlustunarskilyrði með því að draga úr hávaðanum í kennsluumhverfi barna. Ýmsar leiðir eru til þess, fyrst og fremst þarf þó vitundarvakningu um að hávaði sé ekki í boði.

Slíkt er meðal annars gert með því að fækka börnum í hópi. Þá er von til þess að börn með málröskun, sökum slakrar hlustunargetu, nái að rétta úr kútnum, trúlegra þó með hjálp talmeinafræðinga en ekki lyfja.

Munum að börn kvarta ekki en þau sýna vanlíðan sína með hegðun sinni.

(*ADHD er skammstöfun á enska hugtakinu attention deficit hyperactivity disorder; ísl. athyglisbrestur með ofvirkni)




Skoðun

Sjá meira


×