Skoðun

Enn af skipulagsmálum á Kársnesi

Hugrún Sigurjónsdóttir skrifar
Að undanförnu hefur lítið verið fjallað um þær umsvifamiklu framkvæmdir sem standa yfir á Kársnesinu.

Eftir hrun hljóðnuðu stórvirkar vinnuvélar sem keyrðu landfyllingarefni út á Kársnestá. Nú er allt komið á fullt aftur og unnið sleitulaust að því að undirbúa byggingarframkvæmdir á landfyllingu yst á nesinu.

Frestur til að skila inn athugasemdum varðandi Aðalskipulag Kópavogs 2012-2024 rann út 20. september síðastliðinn. Samtökin Betri byggð á Kársnesi (BBK) gera nú sem fyrr alvarlegar athugasemdir við fyrirhugaðar byggingaframkvæmdir á Kársnesi.

Í drögum að nýju Aðalskipulagi er ekki minnst á hvernig bregðast skuli við aukinni umferð sem fylgir fjölgun íbúa upp á nokkur þúsund. Umferðarþungi er nú sem fyrr umtalsverður við Kársnesbrautina.

Íbúi við brautina fékk engin viðbrögð þegar hann fór þess á leit við bæjaryfirvöld að hann fengi niðurgreitt hljóðeinangrandi gler til að dempa umferðarhávaða í íbúð sinni. Annar íbúi við sömu götu hefur fjárfest í hljóðeinangrandi gleri fyrir hundruð þúsunda svo fjölskyldumeðlimir geti sofið vegna umferðarhávaða.

Fyrir nokkrum misserum sá undirrituð auglýsta fasteign við Kársnesbraut og var tekið fram að hún væri við „rólegri“ enda brautarinnar. Þetta segir allt sem segja þarf um umferðina.

Tvær stofnbrautir liggja um Kársnesið; Kársnesbraut og Borgarholtsbraut. Á þeirri síðarnefndu er búið að setja upp hraðahindranir en engar slíkar eru við Kársnesbraut.

Illa ígrunduð

Síðasta hljóðmæling sem gerð var við Kársnesbraut 51a, sem er á horni Kársnesbrautar og Urðarbrautar, var gerð árið 1994, eða fyrir nítján árum! Þá mældist umferðarhávaði utanhúss 61,6 desibel sem er rétt innan viðmiðunarmarka. Það þarf enga útreikninga til að sjá og heyra að umferðarþungi hefur aukist töluvert síðan þessar mælingar voru gerðar.

Samkvæmt aðalskipulagsdrögum er gert ráð fyrir 1.039 íbúða fjölgun á Kársnesinu. Aðeins er gert ráð fyrir 2,2 íbúum í hverri íbúð en sú tala þykir samtökum BBK illa ígrunduð. Meðalfjöldi í hverri íbúð á Kársnesinu nú er 2,74 íbúar. Sé gert ráð fyrir að svipuð íbúatala verði í þeim íbúðum sem rísa munu samkvæmt skipulagsdrögum mun íbúum á Kársnesi fjölga úr 4.420 í um 7.000 íbúa!

Samkvæmt drögum að Aðalskipulagi fyrir 2012-2024 er einnig gert ráð fyrir að verndun verði fjarlægð að hluta við strönd Kársness, bæði að norðan- og sunnanverðu. Þessi ákvörðun er tekin þrátt fyrir að á hverfafundi árið 2009 hafi íbúar valið ströndina sem einn af sínum uppáhaldsstöðum á Kársnesinu.

Er það svona bær sem við viljum búa í? Bær þar sem farið er á svig við vilja íbúa og íbúasamtaka? Bær þar sem ekki er hugað að ónæði eða hættum vegna aukinnar umferðar? Né heldur að aukinni grunnþjónustu og almennum hag núverandi íbúa áður en uppbygging er hafin?

Það er von mín, og okkar í samtökum BBK, að skipulagsyfirvöld Kópavogsbæjar taki fullt tillit til þeirra athugasemda sem samtök BBK sendu inn og að sú uppbygging sem fyrirhuguð er á Kársnesinu verði gerð í sátt og samlyndi við núverandi íbúa sem og náttúru svæðisins.




Skoðun

Sjá meira


×