Skoðun

Mannréttindavernd er ekki munaður

Hrefna Dögg Gunnarsdóttir skrifar
Þegar herðir að ríkisbúskapnum er hættara við að braki í grunnstoðum samfélaga. Í slíkum aðstæðum eru sumir hópar berskjaldaðri en aðrir fyrir niðurskurði í ríkisrekstri. Á meðal þeirra eru minnihlutahópar eins og heyrnarlausir og heyrnarskertir, sem hafa í áratugi barist fyrir því að grundvallarmannréttindi þeirra séu varin. Þótt enn sé langt í land hefur heilmikið áunnist.

Þannig er íslenskt táknmál jafnrétthátt talaðri íslensku sem tjáningarform í samskiptum manna hér á landi og ber ríki og sveitarfélögum lagaleg skylda til að tryggja að allir sem þess þurfa eiga kost á þjónustu á íslensku táknmáli svo sem kveðið er á um í 13. gr. laga um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls nr. 61 frá 2011. Lögin kveða jafnframt á um að óheimilt sé að mismuna mönnum eftir því hvort málið þeir nota.

Með slíkri lögfestingu verður að telja að ríkið hafi þar með undirgengist þá skyldu að veita heyrnarlausum og heyrnarskertum sömu tækifæri og öðrum til þátttöku á hinum opinbera vettvangi, svo sem við stjórn lands síns, í samskiptum við yfirvöld og dómstóla og til að njóta menntunar.

Forsenda þess að geta tekið virkan þátt í samfélaginu með þeim hætti er að geta tekið við upplýsingum og tjáð sig, bæði á opinberum vettvangi og ekki síður í daglegu lífi sem þarf ekki nauðsynlega að tengjast samskiptum við hið opinbera, til dæmis á almennum vinnumarkaði.

Stjórnarskrárvarin réttindi

Að auki má benda á markmið laga um Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra nr. 129 frá 1990 sem kveða á um að lögunum sé ætlað að stuðla að jafnrétti heyrnarlausra til þjónustu sem víðast í þjóðfélaginu á grundvelli táknmáls heyrnarlausra. Lögfesting framangreinds ákvæðis ber með sér að þjónusta við heyrnarlausa og heyrnarskerta skuli ekki takmörkuð við hið opinbera. Með þessum hætti hefur löggjafinn útfært stjórnarskrárvarin réttindi til félagslegrar aðstoðar og bann við mismunun.

Af fréttum að dæma er ljóst að skorið hefur verið niður í framlögum ríkisins til túlkaþjónustu og nú er svo komið að ýmis þjónusta sem er nauðsynleg heyrnarlausum í daglegu lífi, svo sem þjónusta með textasíma og myndsíma, hefur verið felld niður vegna fjárskorts. Vernd þessara grunnréttinda heyrnarlausra og heyrnarskertra hefur því verið færð neðar í forgangsröðina – aftur.

Þó að ríkjum sé játað svigrúm til að bregðast við lakara efnahagsástandi er ekki svo að stjórnvöld hafi óbundnar hendur af lögum ríkisins eða alþjóðlegum mannréttindasamningum og yfirlýsingum sem þau hafa undirgengist. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um slíkt svigrúm ríkja og í margvíslegu samhengi komist að þeirri niðurstöðu að minni fjármunir ríkissjóðs réttlæti ekki brot gegn skyldum ríkis samkvæmt Mannréttindasáttmála Evrópu (sjá t.d. MDE: Burdov g. Rússlandi í máli nr. 59498/00, málsgr. 35).

Það hefur stundum verið sagt að dýrt sé að vera fátækur og augljóst að þegar harðnar í ári þurfi að beita köldu mati við að skera niður munað. Það er flestum ljóst að vernd grundvallarmannréttinda kostar fjármuni. Heyrnarlausum og heyrnarskertum liggur á svari við því hvort mannréttindi séu munaður.




Skoðun

Sjá meira


×