Skoðun

Trú, skoðun og kærleikur

Þórhallur Hafþórsson skrifar
Ég las setningu á netinu sem vakti upp með mér djúpar hugleiðingar. Setningin var:

„Ekki er kristið fólk á Gay Pride að mótmæla samkynhneigð“

Þessi setning kom fram í umræðu um mannréttindahátíðina Glæstar vonir sem var haldin í Laugardal. Þar kom fólk saman til að minnast þess hvað það er mikilvægt að mannréttindi séu til staðar í samfélagi manna, jafnt á Íslandi sem í öllum heiminum.

En á sama tíma var önnur samkoma, Hátíð vonar, haldin í Laugardalnum. Það hefur verið mikið gagnrýnt að predikaranum Franklin Graham hafi verið boðið að halda ræðu þar. Hann hefur hlotið gagnrýni meðal annars fyrir það að predika gegn hjónabandi samkynhneigðra og að samkynhneigð sé synd að hans mati.

Hann vil eiga þann rétt að vera þeirrar skoðunar.

Þegar ég les þetta orð, skoðun, er eins og heilinn á mér snarhemli og ég finn mig stara á orðið. Ég á erfitt með að skilja setninguna í heild sinni. Það að líkja saman trú og skoðun og kynhneigð þykir mér furðulegt.

Skoðun eru jú eitthvað sem ég mynda mér. Trú er eitthvað sem ég uppgötva, ekki af völdum skoðana. Kynhneigð er hvorki trú né skoðun. Það er ekki hægt að velja trú, hana finnur maður. Ef ég trúi á einhvern guð, eða ekki, þá er það ekki vegna þess að ég ákvað það, heldur vegna þess að ég einfaldlega trúi eða trúi ekki. Ég ákveð heldur ekki kynhneigð mína og því er ekki hægt að hafa skoðun á henni.

Ég ákvað ekki að fæðast sem manneskja, móðir mín og faðir eru manneskjur og þess vegna getur enginn verið þeirra skoðunar að ég sé hvalur eða fiðrildi. Ég er það sem ég fæðist og finn og hugsa. Ég trúi því sem ég trúi, ekki því sem mér er kennt. Skoðun er allt annað mál. Ég hef til dæmis þá skoðun að mér finnst nýju gleraugun mín rosalega flott. Því má alveg mótmæla og rökræða fram og til baka.

Kynhneigð ætti ekki að skipta máli. Ætti ekki að þurfa að vera til umræðu. Það kemur foreldrum mínum ekkert við hvort ég sé samkynhneigður eða ekki. Það sama á við um systkin mín, ömmur og afa, vini, bekkjarfélaga, viðskiptavini og aðra einstaklinga.

Eina undantekningin er einstaklingar sem verða hrifnir af mér. Ef einhver verður hrifinn af mér er mikilvægt fyrir þá manneskju að vita hvort ég geti endurgoldið tilfinninguna, en annars ekki.

Í fullkomnu samfélagi væri engin þörf á því að „koma út úr skápnum“. Skápurinn væri einfaldlega ekki til. Allir myndu vera inni í sama rými og njóta sjálfsagðra mannréttinda.




Skoðun

Sjá meira


×