Skoðun

Er best að búa á Norðurlöndum?

Guðmundur Edgarsson skrifar
Þegar við frjálshyggjumenn tölum fyrir mikilvægi hins frjálsa markaðar í rekstri þjóðfélags fáum við gjarna að heyra að ekki sé nú frjálshyggjunni fyrir að fara í þeim löndum sem best vegnar á mælikvarða lífskjara og ýmissa lýðréttinda. Þá er iðulega bent á Norðurlöndin, þau séu rekin samkvæmt félagshyggjulíkani með sterku ríkisvaldi og umtalsverðri miðstýringu.

Frelsisvísitölur

Í þessu samhengi er rétt að skoða hvernig Norðurlöndin raðast á lista þeirra landa sem Heritage-stofnunin hefur mælt með tilliti til efnahagslegs frelsis. Efnahagslegt frelsi er metið út frá eftirfarandi fjórum meginþáttum: eignarrétti, umfangi ríkisafskipta, skilvirkni vinnumarkaðslöggjafar og viðskiptafrelsi. Hverjum þessara fjögurra meginþátta er svo skipt í nokkra undirþætti sem of langt mál er að gera grein fyrir hér. Stofnunin tekur út tæp 180 ríki og skiptir þeim svo í eftirfarandi fimm flokka eftir því hve há frelsisvísitalan reynist vera: frjáls ríki (80-100 stig); frjáls að mestu (70-79,9 stig); hóflega frjáls (60-69,9); ófrjáls að mestu (50-59,9) og heft (0-49,9).

Frjálshyggja á Norðurlöndum

Aðeins fimm lönd komast í hóp frjálsra ríkja samkvæmt útreikningum stofnunarinnar. Röð þeirra er eftirfarandi: Hong Kong, Singapúr, Ástralía, Nýja-Sjáland og Sviss. Fyrir utan það að ekkert Norðurlanda kemst á topp fimm, vekur tvennt athygli hvað hóp frjálsustu ríkja varðar. Annars vegar að BNA eru ekki þar á meðal, þvert á þá mýtu að Bandaríkin séu fyrirmyndarríki frjálshyggjumanna. Hins vegar að aðeins eitt Evrópuríki er í þessum hópi, þ.e. Sviss.

Í næsta flokk, þ.e. í hóp þeirra ríkja sem Heritage-stofnunin metur sem frjáls að mestu í efnahagslegu tilliti, koma þrjátíu lönd. Er Norðurlöndin þar að finna? Jú, öll Norðurlöndin teljast meðal þeirra ríkja sem búa við mikið efnahagslegt frelsi. Norðurlöndin raðast þannig: Danmörk (9. sæti), Finnland (16. sæti), Svíþjóð (18. sæti), Ísland (23. sæti) og Noregur (31. sæti).

Bandaríkin eru einnig í þessum hópi, nánar tiltekið í 10. sæti. Vert er að veita því eftirtekt að Danmörk er aðeins fjórum sætum frá því að komast á lista yfir frjálsustu ríki heims, telst meira að segja frjálsara en sjálf Bandaríkin, land sem margir hafa talið ímynd kapítalismans í heiminum. Í stuttu máli: af um 180 löndum sem Heritage-stofnunin mælir með tilliti til efnahagslegs frelsis teljast öll Norðurlöndin meðal 10-20% efstu.

Norðurlönd frjálsari en BNA?

Séu Norðurlöndin borin saman við Bandaríkin hvað efnahagslegt frelsi varðar kemur í ljós að Norðurlöndin standa Bandaríkjunum framar á ýmsum sviðum. Skattar á fyrirtæki eru umtalsvert lægri á Norðurlöndum en í Bandaríkjunum. Útgjöld til hernaðarmála eru mun lægri á Norðurlöndum en í Bandaríkjunum. Útgjöld bandaríska ríkisins til heilbrigðismála (aðallega vegna Medicaid og Medicare) eru hærri en á öllum Norðurlöndum að Noregi undanskildum þrátt fyrir að stór hluti heilbrigðisþjónustunnar í Bandaríkjunum sé rekinn á vegum einkaaðila.

Hvað samanburð við Ísland varðar má nefna einkavæðingu í skóla- og heilbrigðiskerfinu en þar standa Norðurlönd, t.a.m. Svíar, mun framar okkur Íslendingum en fólk vill vera láta.

Nýja-Sjáland, Sviss og Hong Kong

Þótt ríkisumsvif og skattheimta hvers konar sé að mati okkar frjálshyggjumanna alltof mikil á Norðurlöndum er því ekki að neita að í samanburði við aðrar þjóðir teljast Norðurlönd í hópi lýðfrjálsari ríkja, bæði hvað varðar efnahagslegt frelsi og borgaraleg réttindi. Engu að síður eru lönd sem standa Norðurlöndum enn framar að þessu leyti, t.d. Nýja-Sjáland og Sviss.

Á Nýja-Sjálandi er t.d. fjöldi opinberra starfsmanna innan við 10% á meðan fjöldi þeirra á Norðurlöndum er á milli 20-30%. Sömu sögu er að segja um Sviss. Sviss er skipt upp í 26 kantónur sem hver um sig hefur verulegt sjálfræði yfir sínum málum. Það hefur orðið til þess að skapast hefur mikil samkeppni á milli þeirra um vinnuafl og fyrirtæki sem svo aftur hefur leitt til þess að skattar í Sviss eru meðal þeirra allra lægstu á Vesturlöndum. Fyrir vikið hefur einkaframtak notið sín þar í mun meiri mæli en tíðkast í flestum öðrum vestrænum ríkjum, t.d. er heilbrigðisþjónustan í Sviss að mestu í höndum einkaaðila.

Þá er eftirtektarvert að í Hong Kong kostar heilbrigðiskerfið einungis um 6% af þjóðarframleiðslu. Umtalsverður hluti heilbrigðisþjónustunnar í Hong Kong er einkarekinn. Til samanburðar nemur sama hlutfall um 10-12% á Norðurlöndum.

Horfa út fyrir Skandinavíu

Af framansögðu er ljóst að rökrétt er að horfa í frekari mæli til landa eins og Sviss og Nýja-Sjálands og jafnvel Hong Kong (þótt það ríki sé um margt sér á báti) heldur en að einblína á Norðurlönd þegar leitað er fyrirmyndarlanda hvað varðar efnahagslegt sjálfstæði, verðmætasköpun og velferð almennt.






Skoðun

Sjá meira


×