Skoðun

Eru stelpur heimskari en strákar?

Birna Ketilsdóttir Schram skrifar
Hin vinsæla spurningakeppni framhaldsskólanna, Gettu betur, hóf göngu sína fyrir 27 árum. Menntaskólinn í Reykjavík hefur keppt öll árin og unnið átján sinnum, oftast allra skóla. Í þessi 27 skipti sem MR hefur tekið þátt hefur aðeins ein stelpa setið í liðinu. Af hverju skyldi það vera? Er það vegna þess að stelpur eru einfaldlega bara heimskari en strákar?

Í vor tók ég við embætti inspector scholae, formanns Skólafélags MR. Hluti af starfi mínu felst í því að sjá um spurningalið MR í Gettu betur. Eitt af því fyrsta sem ég ræddi við þjálfara liðsins var hvernig við gætum hvatt stelpur til að taka þátt í Gettu betur án þess að nota kynjakvóta. Niðurstaðan var sú, í samráði við rektor MR, að halda forpróf sem lagt yrði í haust fyrir alla nemendur skólans í kennslustund.

Mikil áhersla var lögð á að auglýsa prófið vel og á plakatinu stilltum við upp Gettu betur liði með tveimur stelpum og einum strák. Með því vildum við höfða til stelpna og hvetja þær til að taka þátt í prófinu. Áður hafði forprófið verið misvel auglýst og haldið eftir skóla þar sem þeir sem vildu gátu þreytt prófið.

Aldrei hefur verið jafn góð þátttaka í forprófinu og í ár. Þrátt fyrir það skoruðu strákar hæst og voru þar af leiðandi valdir í liðið. Staðfestir þetta að strákar séu einfaldlega klárari en stelpur og að Gettu betur sé bara karlasport?

Almennt er ég ekki hrifin af kynjakvóta. Ég myndi til dæmis ekki vilja gegna því embætti sem ég er í, af því að ég er stelpa, heldur vegna eigin verðleika. Samt sem áður studdi ég tillögu RÚV um kynjakvóta í Gettu betur, því það þarf að gera eitthvað meira, eitthvað róttækara, til þess að hvetja stelpur áfram.

Kynjakvótinn er tilraunaverkefni til tveggja ára. Ég trúi því að það sé vel þess virði að prófa hvort hann hafi jákvæð áhrif því það hefur sýnt sig og sannað að um leið og stelpur hafa kvenfyrirmyndir eru mun meiri líkur á því að þær sjái sig sjálfar í því hlutverki og ýtir það við þeim til að komast þangað.

Þetta gæti verið nauðsynleg leið til að stuðla að breytingum. Ekki viljum við vera í sömu sporum eftir önnur 27 ár og velta fyrir okkur áfram þeirri fáránlegu spurningu hvort stelpur séu virkilega heimskari en strákar.




Skoðun

Sjá meira


×