Skoðun

Peningar eða réttindi

Áslaug Ýr Hjartardóttir skrifar
Margt fólk gerir sér ekki grein fyrir því hvað það er að vera með sjón- eða heyrnarskerðingu, hvað þá hvorutveggja. Það er hins vegar staðreynd að fólk með slíka fötlun er í stöðugri hættu á að einangrast. Þess vegna er mikilvægt að styðja við það og veita m.a. þá þjónustu sem þetta fólk þarf til að geta tekið þátt í samfélaginu og lifað sjálfstæðu lífi. Ein af þessum þjónustum er túlkaþjónustan sem Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra annast (SHH).

Ég, sem daufblindur einstaklingur, notast mikið við túlkaþjónustuna sem er mér mikils virði. Túlkaþjónustan hjálpar mér ekki aðeins í samskiptum við heyrandi fólk heldur líka við heyrnarlausa. Ástæðan er sú að ég er ekki bara heyrnarlaus heldur sé ég líka illa og sé ekki táknmál nema það sé armslengd frá mér. Ég get því hvorki átt í samskiptum við fólk sem notar ekki táknmál né tekið þátt í umræðum á táknmáli þar sem fleiri en tveir ræða saman.

Til gamans má líka benda á að á aðalfundum Fjólu, félags fólks með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu, er ávallt að finna þó nokkra millitúlka, en félagsstarfsemi félagsins getur eiginlega ekkert gengið án túlkaþjónustunnar, nema þá ef aðrir en daufblindir sjálfir myndu annast félagið. En hver borgar fyrir táknmálstúlka?

Þjakandi óöryggi

Eins og fyrr var getið sér SHH um túlkaþjónustuna. Í 4. gr. reglugerðar SHH stendur m.a. að SHH sjái um að veita táknmálstúlkaþjónustu annaðhvort gegn gjaldi eða endurgjaldslaust. Það þýðir að við þurfum annaðhvort að borga fyrir þessa þjónustu eða ekki. Það hefur verið tryggt að heyrnarlausir fá táknmálstúlkun í námi og þegar hitta þarf lækni. En ég ætla svo sem ekki að lýsa því í smáatriðum heldur beina athyglinni að annars konar túlkun, nefnilega félagslegri táknmálstúlkun. Með því er átt við táknmálstúlkun í daglegu lífi s.s. til að hringja, fara á fundi, fara á námskeið, taka þátt í klúbbastarfi, fara til einkaþjálfara o.s.frv.

Sérstakur sjóður greiðir fyrir þessa þjónustu, svokallaður Félagslegur sjóður eða Þorgerðarsjóður. Þessi sjóður hefur algjörlega bjargað lífi mínu en vegna hans get ég tekið þátt í félagslífi og lifað sjálfstæðu lífi. Ég get nefnilega ekki tekið þátt í neinu félagsstarfi án millitúlkunar og ef þessi sjóður hefði ekki verið væri ég fyrir löngu búin að einangrast, loka mig inni og sjálfsagt komin með brenglaða sjálfsmynd og þjakandi óöryggi.

Heimurinn hrundi

En svo gerðist nokkuð sem varð til þess að heimurinn hrundi. Félagslegi sjóðurinn varð tómur. SHH bað mennta- og menningamálaráðuneytið um meiri peninga, þar sem ráðuneytið sér um fjárveitingarnar, en þeirri beiðni var synjað. Þetta tók kannski bara fimm mínútur, þ.e. að synja beiðninni, en á þessum örfáu mínútum datt brúin á milli mín og umheimsins í sundur og mér var bara fleygt út í horn þar sem ég má dúsa í rúma fjóra mánuði. Ég fæ kannski túlkun í skólanum en það hljóta allir að vera sammála mér um að maður getur ekki bara lifað á skóla einum saman, fyrir utan heimilið.

Ég vil geta gert hluti eins og aðrir unglingar, tekið þátt í félagsstarfi, farið í veislur, skellt mér á spennandi námskeið… Já, ég er ekki nema 17 og lífið bara rétt að byrja. Nú þyrfti ég að eyða helling af sparifénu mínu fyrir ekki nema korters afnot af þessari þjónustu en hvaða 17 ára námsmaður á nógan pening til að borga fyrir táknmálstúlkun í rúma fjóra mánuði?

Þetta kalla ég einu orði mismunun. Mér líður eins og mér hafi verið útskúfað úr samfélaginu í fjóra mánuði, bara út af því sem ég er. Í Sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks stendur m.a. í 3. gr. að mismunun sé ekki liðin. Af hverju á það ekki við um mig? Ísland hefur kannski ekki enn þá undirritað þennan sáttmála en það breytir ekki þeirri staðreynd að til eru viðurkennd lög um réttindi fatlaðs fólks. Ég ætla ekki að telja upp allt sem stendur í sáttmálanum, hægt er að lesa hann á netinu, t.d. á heimasíðu Blindrafélagsins, blind.is. En af hverju bý ég við mismunun? Hvort skiptir meira máli, peningar eða réttindi okkar?




Skoðun

Sjá meira


×