Innlent

Ráðuneyti eru sögð brjóta landslög við nefndaskipan

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Kristín Ástgeirsdóttir, framkvæmdastýra Jafnréttisstofu.Fréttablaðið/Valli
Kristín Ástgeirsdóttir, framkvæmdastýra Jafnréttisstofu.Fréttablaðið/Valli
Af þeim 148 nefndum, ráðum og stjórnum sem skipað var í á vegum ráðuneyta í fyrra voru 48 sem ekki var skipað í í samræmi við kynjakvóta sem kveðið er á um í lögum frá 2008. Í þeim er gert ráð fyrir að hlutur hvors kyns um sig skuli ekki vera minni en 40 prósent nema hlutlægar ástæður heimili annað.

Jafnréttisstofa, sem haft hefur eftirlit með framkvæmd kynjakvótans, hefur verið í sambandi við öll ráðuneytin og óskað eftir því að þau skýri þær ástæður sem tilnefningaraðilar hafa gefið ef ekki voru tilnefnd bæði karl og kona.

„Við höfum fengið skýringar sem yfirleitt eru fullnægjandi en ef þær eru ekki í samræmi við undanþáguheimildina bendum við á að verið sé að brjóta lög,“ segir Kristín Ástgeirsdóttir, framkvæmdastýra Jafnréttisstofu.

Hún tekur það fram að staðan sé að mörgu leyti ásættanleg. „Þegar litið er til heildarfjölda nefnda er það hins vegar athyglisvert að það skuli vera hjá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti og innanríkisráðuneyti sem hlutfall kvenna er lægst eða 39 prósent. Ýmsar nefndir hafa að vísu verið óbreyttar um árabil og það er ekki fyrr en kemur að endurnýjun sem tekst að leiðrétta kynjahallann og uppfylla lagaskyldur. Þess vegna er mikilvægt að skoða sérstaklega nýskipanir á hverju starfsári fyrir sig.“

Kristín segir að tilnefningaraðilar þurfi að vera með opin augu og líta í kringum sig. „Þeir þurfa jafnframt að leita ráða.“

Jafnréttisstofa hefur tekið til greina þætti eins og reynslu og sérþekkingu starfsfólks auk verkaskiptingar á vinnustöðum og fleira við mat á undanþágum, að því er Kristín greinir frá. „Við teljum hins vegar ekki rétt að nýta undanþáguheimildina ef engar skýringar á nýtingu hennar koma frá viðkomandi ráðuneyti.“

Velferðarráðuneytið var með jafnasta þátttöku kynjanna í nefndum á sínum vegum og einnig eina ráðuneytið með fleiri konur en karla í sínum nefndum, það er 52 prósent á móti 48 prósentum. Sex ráðuneyti af átta eru með hlutfall kynjanna innan viðmiðunarmarka.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×