Íslenski boltinn

KR Íslandsmeistari í 26. sinn

Stefán Árni Pálsson skrifar
Bjarni Guðjónsson fer hér í gegnum ákveðna athöfn eftir alla sigurleiki. Stemningin var mögnuð eftir leik KR og Vals í gær. Íslandsmeistarar árið 2013 dönsuðu sigurdans með stuðningsmönnum Vesturbæinga.
Bjarni Guðjónsson fer hér í gegnum ákveðna athöfn eftir alla sigurleiki. Stemningin var mögnuð eftir leik KR og Vals í gær. Íslandsmeistarar árið 2013 dönsuðu sigurdans með stuðningsmönnum Vesturbæinga. fréttablaðið/stefán
KR varð í gær Íslandsmeistari í Pepsi-deild karla eftir, 2-1, sigur á Val á Vodafone-vellinum. Liðið hefur því tryggt sér titilinn fyrir lokaumferðina en KR-ingar eru með 49 stig. Vesturbæjarveldið á samt sem áður tvo leiki eftir af tímabilinu og geta því farið vel yfir 50 stiga múrinn. Þetta var í 26. skipti sem KR verður Íslandsmeistari í knattspyrnu karla.

Gary Martin gerði bæði mörk KR í leiknum og komu þau í fyrri hálfleiknum.

„Það var í raun aðeins meiri ró yfir liðinu í dag, meira stress fyrir leikinn gegn Blikum á fimmtudaginn,“ segir Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, eftir að liðið hafði tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn.

„Liðið lék virkilega vel í fyrri hálfleiknum í dag og lagði gruninn að þessum sigri þá. Ég var ekki sáttur þegar Valsmenn minnkuðu muninn og þetta stóð nokkuð tæpt á tíma, þar sem Valsmenn voru sterkari aðilinn í síðari hálfleiknum.“

KR hefur verið með besta liðið í allt sumar og sýnt á köflum frábæra spilamennsku. Liðið er vel mannað og hefur Rúnar gríðarlega breiðan hóp leikmanna.

Mögnuð liðsheild

„Það sem leggur grunninn að þessum titli er ótrúleg liðsheild. Menn eru alltaf tilbúnir að fórna sér hver fyrir annan. Það þurfa alltaf einhverjir góðir leikmenn að sitja á varamannabekknum og fá færri tækifæri en aðrir og menn þurfa bara að bíta í það súra epli. Það hefur alveg komið upp að leikmenn verði pirraðir en svona breiður hópur er að skila KR Íslandsmeistaratitlinum í ár.“

„Það verður að segjast alveg eins og er að þetta er mjög góð tilfinning,“ segir Atli Sigurjónsson, leikmaður KR, eftir leikinn.

„Síðari hálfleikurinn hjá okkur var alls ekki nægilega góður og við náðum ekki að spila okkar leik. Valsmenn áttu alveg möguleika á því að jafna en sem betur fer hafðist það ekki.“

KR-ingar voru í raun lakari aðilinn í síðari hálfleiknum og heppnir að Valsmenn náðu ekki að jafna.

„Liðið byrjaði strax í nóvember að búa sig undir þetta tímabil og markmiðin voru skýr, við ætluðum okkur Íslandmeistaratitilinn.“

„Það sem kemur fyrst upp í huga manns er mikill léttir,“ segir Grétar Sigfinnur Sigurðarson, leikmaður KR, eftir sigurinn í gær.

KR gat með sigri á Breiðablik á fimmtudaginn tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn en liðið tapaði illa 3-0 fyrir Kópavogsliðinu og þurfti því að hafa sig allt við til að landa titlinum í gær.

„Það var virkilega pirrandi að tapa svona illa gegn Blikum á fimmtudaginn og við ætlum svo sannarlega að gera betur í dag.“

KR og Valur hafa í gegnum áratugina verið miklir erkifjendur og því var ekki leiðinlegt fyrir KR-inginn að klára Íslandsmeistaratitilinn á þeirra heimavelli.

„Það er auðvitað alltaf gaman að klára svona titil en KR og Valur eru miklir erkifjendur og því sérstaklega gaman hér.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×