Innlent

Afdrifarík líkamsárás komin fyrir dóm

Stígur Helgason skrifar
Bergur segist hafa logið sökum upp á Annþór Karlsson og Börk Birgisson í fyrra.
Bergur segist hafa logið sökum upp á Annþór Karlsson og Börk Birgisson í fyrra. Fréttablaðið/GVA
Ríkissaksóknari hefur gefið út ákæru á hendur Bergi Má Ágústssyni, 29 ára margdæmdum afbrotamanni, fyrir líkamsárás að morgni 4. janúar 2012.

Samkvæmt ákærunni mætti Bergur á heimili Smára Valgeirssonar í Vesturbergi í Breiðholti vopnaður kylfu. Hann barði annan mann sem kom til dyra, Sigmund Geir Helgason, í höfuðið með sleggjunni og braut síðan rúðu með þeim afleiðingum að glerbrotum rigndi yfir Smára, sem skaddaðist við það á auga. Ákæran var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær og þar neitaði Bergur Már sök.

Atvikið í Vesturbergi var afdrifaríkt, því að síðar um daginn héldu Smári og Sigmundur vopnaðir í fylgd átta annarra að heimili Bergs í Háholti í Mosfellsbæ til að hefna árásarinnar. Þar var Bergur Már meðal annars fótbrotinn með stórri plastsleggju.

Meðal þeirra sem fóru í Háholt voru Annþór Kristján Karlsson og Börkur Birgisson og árásin þar var þungamiðjan í umfangsmiklu dómsmáli sem kennt var við tvímenningana. Í því máli hlutu þeir sjö og sex ára fangelsisdóma um síðustu áramót, Smári tveggja ára dóm og Sigmundur 18 mánaða dóm.

Síðan hefur Bergur gefið skýrslu fyrir dómi og fullyrt að hann hafi logið sökum upp á Annþór og Börk, undir þrýstingi frá lögreglu og fleirum.

Smári hefur einnig kært Berg Má fyrir að stinga sig í lærið með hníf við bar í Breiðholti í fyrrahaust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×