Innlent

Draga á úr álaginu á lyflækningasviði

Jóhanna Margrét Einarsdóttir og Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Björn Zoëga forstjóri LSH og Kristján Júlíusson velferðarráðherra kynntu tillögur til úrbóta á lyflækningasviði á blaðamannafundi í gær.
Björn Zoëga forstjóri LSH og Kristján Júlíusson velferðarráðherra kynntu tillögur til úrbóta á lyflækningasviði á blaðamannafundi í gær. Fréttablaðið/Pjetur
„Hvort þær úrbætur sem boðaðar eru af hálfu heilbrigðisráðherra á lyflækningasviðinu duga einar sér á eftir að koma í ljós. Vandamálin verða til staðar að minnsta kosti eitthvað fram á veturinn en þetta er kannski upphafið að því að hefja endurreisnarstarf á sviðinu,“ segir Karl Andersen, prófessor í hjartalækningum.

Kristján Júlíusson heilbrigðisráðherra kynnti í gær aðgerðaáætlun í nokkrum liðum sem á að bæta stöðu lyflækningasviðs Landspítala – háskólasjúkrahúss.

Samkvæmt henni á að draga úr álagi á starfsemi lyflækningasviðsins með því að finna ný vistunarúrræði fyrir 50 aldraða sjúklinga sem lokið hafa meðferð á sjúkrahúsinu en hafa ekki komist í hjúkrunarrými. Skipa á yfirlækni almennra lyflækninga á næstu dögum.

Starfshópur á svo að skila forstjóra margvíslegum tillögum fyrir októberlok.

Björn Zoëga forstjóri vonast til að boðaðar breytingar komi í veg fyrir atgervisflótta og að fleiri komi til starfa á sjúkrahúsinu.

Segir álagið þegar vera of mikiðÍ tillögum ráðherra og forstjóra LSH er meðal annars gert ráð fyrir að nýttir verði betur „kraftar og hæfni“ hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða og fleiri stétta til að styðja við störf lækna.

Ólafur G. Skúlason, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, hefur miklar áhyggjur af því aukna álagi sem stuðningurinn felur í sér.

„Álagið er nú þegar gríðarlegt en ef skapað verður svigrúm til að hjúkrunarfræðingar geti bætt við sig verkefnum fagna ég því að nýta eigi betur menntun þeirra, þekkingu og færni,“ segir Ólafur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×