Innlent

Einkaspæjari fann Grýlu í New York í Bandaríkjunum

Valur Grettisson skrifar
Umdeild Grýla Steingrímur Eyfjörð með listaverkið Grýlu. Fréttablaðið/GVA
Umdeild Grýla Steingrímur Eyfjörð með listaverkið Grýlu. Fréttablaðið/GVA
Myndlistarmaðurinn Steingrímur Eyfjörð fann skúlptúrinn Grýlu í vor eftir að hafa leitað að því í fimm ár. Nú segir hann að listaverkasafnarinn Gunnar Dungal, oftast kenndur við Pennann, vilji ekki standa við gerða samninga um kaup á listaverkinu sem gerðir voru árið 2007.

„Ég fann ekki verkið fyrr en í vor,“ útskýrir Steingrímur en Grýla var til sýnis í galleríinu Max Protetch í New York í Bandaríkjunum árið 2008. Eigandi gallerísins seldi starfsemina til annars aðila og hætti störfum í kjölfarið.

Verkið hvarf og Steingrímur segist hafa leitað til bandaríska sendiráðsins um aðstoð sem aftur benti á utanríkisráðuneytið. Ekkert gekk í þeim leiðangri og úr varð að hann fékk lögfræðing til þess að finna fyrir sig verkið. Sá hafði samband við einkaspæjara í Bandaríkjunum.

„Þá fór þetta að ganga,“ segir Steingrímur en einkaspæjarinn fann verkið skömmu síðar. Það reyndist vera í vöruskemmu skammt fyrir utan borgina.

Steingrímur segir að hann hafi samið við Gunnar Dungal árið 2007 um að selja honum þrjú listaverk en þau fengi hann öll á helmingsafslætti. Gunnar fékk afhent og borgaði fyrir tvö verk á afslættinum.

Steingrímur segir Gunnar ekki vilja standa við gerða samninga um kaup á Grýlu, sem kostar þrjár milljónir króna, eftir að verkið var endurheimt.

„Mér finnst mjög sérkennilegt að hann hafi ekki viljað koma til móts við mig á neinn hátt,“ segir Steingrímur.

„Það eru sex ár síðan ég átti að fá þessa styttu steypta í brons og samkvæmt öllum okkar samskiptum, sem eru til í tölvupósti, er algjörlega skýrt að Steingrímur átti að sjá um þá hlið málsins,“ segir Gunnar Dungal.

Gunnar bætir við að hann átti sig ekki á því að vera dreginn inn í málið, það snúi að Steingrími, en ekki honum sjálfum.

„Ég hafna þessum ásökunum alfarið,“ segir Gunnar um meintar vanefndir.

Steingrímur segir að það hafi verið í farvatninu að finna ódýra leið til þess að gera afsteypu af verkinu. Hann hafnar því að einhvers konar samkomulag hafi náðst þar um. Hann segir að það hafi verið dýrari lausn en að kaupa frummyndina.

„Og ef það hefði gengið eftir, þá hefði Gunnar þurft að greiða fyrirfram framleiðslukostnaðinn,“ segir Steingrímur, sem íhugar að fara með málið fyrir dómstóla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×