Viðskipti innlent

Ekki haft tíma til að auglýsa vaxtabætur

Stígur Helgason skrifar
Eigendur heimila sem á hvíla lánsveð eiga að fá sérstöku vaxtabæturnar sem uppbót fyrir aðra mismunun.
Eigendur heimila sem á hvíla lánsveð eiga að fá sérstöku vaxtabæturnar sem uppbót fyrir aðra mismunun. Fréttablaðið/vilhelm
Ríkisskattstjóri segir að þeir sem tilheyra svokölluðum lánsveðshópi þurfi ekki að hafa áhyggjur af því að fá ekki sérstakar lánsveðsvaxtabætur sem síðasta ríkisstjórn lögfesti rétt fyrir þinglok í vor. Frestur til að sækja um bæturnar til Ríkisskattstjóra rennur út eftir mánuð og þar til í gær hafði embættið ekki kynnt opinberlega hvernig fólk ætti að bera sig að við umsóknina.

Fólk sem tilheyrir hópnum hefur haft samband við Fréttablaðið og furðað sig á því að enn hafi ekkert verið gert í þessum efnum þegar svo stutt sé orðið til stefnu. Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri segir að fyrirvarinn sem gefinn var í lögunum hafi verið mjög stuttur. „Þetta helgast bara af því að lögin voru samþykkt rétt áður en þingið fór heim og það hafa verið mjög miklar annir við að framkvæma ýmsar aðrar lagabreytingar,“ segir Skúli, sem segir embættið hafa þurft að taka upp á annað hundrað lagabreytingar undanfarin ár.

Skúli Eggert Þórðarson
„Ríkisskattstjóri kom því sjónarmiði á framfæri að þetta væri stuttur fyrirvari. En látum það nú vera, þetta er orðið að lögum í landinu,“ segir Skúli. „Það sem Ríkisskattstjóri mun gera er að taka saman leiðbeiningar um þetta mál og setja á vefinn, birta almenna auglýsingu og gera grein fyrir því í hverju þessi réttur felst og hvaða skyldur eru þarna.“

Í lögunum er kveðið á um að umsóknarfrestur sé til 15. september og að umsækjendum beri að afhenda ríkisskattstjóra þau gögn sem hann telur nauðsynleg vegna ákvörðunar bótanna. Hins vegar segir einnig í lögunum að embættinu sé heimilt að taka til greina umsóknir sem berast eftir þetta tímabil í allt að tvö ár.

Meðal annars í þessu ljósi segist Skúli ekki óttast að fólk hafi of knappan tíma til stefnu.

„Þeir sem heyra þarna undir þurfa ekki að hafa áhyggjur af því að réttur þeirra verði fyrir borð borinn. Þetta er ekki þannig að menn lokist inni á þessum fresti.“

Síðdegis í gær vakti Skúli svo athygli Fréttablaðsins á því að frétt um lánsveðsvaxtabæturnar og tilheyrandi upplýsingar væru komnar á vef stofnunarinnar, rsk.is. Þar kemur fram að umsóknareyðublað verði tilbúið í lok mánaðar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×