Lífið

"Maður fær að skapa sinn eigin heim"

Sara McMahon skrifar
Hörður Ingason starfar sem tískuljósmyndari í Danmörku. Hann myndaði tískuþátt fyrir danska tískuritið Costume.
Hörður Ingason starfar sem tískuljósmyndari í Danmörku. Hann myndaði tískuþátt fyrir danska tískuritið Costume. Myndir/Hörður Ingason
"Þetta er mitt annað verkefni fyrir blaðið. Áður hafði ég unnið með dönskum stílista að myndaþætti. Ég var svo fenginn í þetta verkefni og það var bara skemmtileg tilviljun að við Þóra, sem starfar hjá Costume, erum bæði íslensk. Við mynduðum bara flíkur eftir danska hönnuði og verkefnið gekk mjög vel,"? segir ljósmyndarinn Hörður Ingason. Tískuþáttur eftir hann og Þóru Valdimarsdóttur stílista birtist í ágústhefti danska tískuritsins Costume.

Hörður er búsettur í Kaupmannahöfn og starfar sem tískuljósmyndari. Hann stundaði áður ljósmyndanám í Viborg, en skólinn mun vera einn besti ljósmyndaskóli í Skandinavíu. Hörður dvaldi einnig um hríð í New York og var þá í læri hjá ljósmyndaranum Kenneth Willardt, sem hefur unnið mikið fyrir snyrtivörumerki á borð við L'Oréal og Maybelline.

Úr costume Fatnaðurinn sem Hörður myndaði var eftir danska fatahönnuði.
Hörður tekur að sér ýmis verkefni en segir tískuljósmyndun vera í uppáhaldi. "Mér þykir viðfangsefnin í tískuljósmyndun áhugaverð. Maður fær að skapa sinn eigin heim í kringum tökurnar og svo finnst mér mjög gaman að mynda fyrirsætur." Tískuiðnaðurinn í Kaupmannahöfn er að sögn Harðar lítill og því margir sem keppa um sömu bitana. "Þetta er pínu hark og það eru margir að reyna að koma sér á framfæri. En ef maður kemst inn í nokkur verkefni verður þetta auðveldara. Eða það vona ég í það minnsta," segir hann og hlær.

Spurður út í framtíðaráform sín segist Hörður ekki vera á heimleið. "Draumurinn er að flytja til New York og starfa sem ljósmyndari. "En svo ræð ég ekki ferðinni einn. Ég bý með kærustu minni hér í Kaupmannahöfn og hún er lærður líftæknifræðingur."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.