Viðskipti innlent

Halli lífeyrissjóðanna samsvarar fjárlögum ríkisins

Lovísa Eiríksdóttir skrifar
Meðal hugmynda til að jafna réttindi starfsmanna ríkis og bæja annars vegar og annarra launamanna hins vegar er að hækka iðgjald almennra launamanna til jafns við það sem starfsmenn ríkis og bæja greiða.
Meðal hugmynda til að jafna réttindi starfsmanna ríkis og bæja annars vegar og annarra launamanna hins vegar er að hækka iðgjald almennra launamanna til jafns við það sem starfsmenn ríkis og bæja greiða. Mynd/Anton
Þorsteinn Víglundsson
Halli hjá lífeyrissjóðum með ábyrgð ríkis og sveitarfélaga nemur 574 milljörðum króna samkvæmt skýrslu Fjármálaeftirlitsins um stöðu lífeyrissjóðanna. Sú upphæð samsvarar heilum fjárlögum frá ríkissjóði.

„Hið opinbera hefur talað um að fjármagna verði hluta af hallanum með því að hækka iðgjöld, sem gerir þá enn erfiðara að ná markmiðum um samræmingu lífeyrisréttinda,“ segir Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Markmiðið er að samrýma réttindi opinberra starfsmanna annars vegar og almennra launþega hins vegar. Ein hugmynd sem nefnd hefur verið er að hækka iðgjöld almenna vinnumarkaðarins úr 12 prósentum í þau 15,5 prósent sem er iðgjald í lífeyrissjóði hjá opinberum starfsmönnum. Almennur eftirlaunaaldur hjá opinberum starfsmönnum myndi á móti hækka úr 65 árum í 67 ár líkt og tíðkast hjá starfsmönnum í einkageiranum.

Hækkun eftirlaunaaldurs opinberra starfsmanna gæti fjármagnað hallann að einhverju leyti og telur Þorsteinn að brýnt sé að ráðast í slíkar aðgerðir áður en farið verður í annars konar aðgerðir til að fjármögnunar.





Gylfi Arnbjörnsson
Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands, segir að þótt vinna um samræmingu lífeyrisréttinda sé komin býsna langt hafi halli lífeyrisjóða með ábyrgð ríkis og sveitarfélaga áhrif á samninga.

„Áður en samtök atvinnulífsins samþykkja að fara í hækkun iðgjalda og samrýma þannig réttindi þá verður að leysa úr vanda opinbera kerfisins. Það er óleystur og ófjármagnaður vandi hjá hinu opinbera. Atvinnulífið óttast að ríkisstjórnir framtíðarinnar muni fjármagna þennan halla með álögum á atvinnulífið og því sé það ekki aflögufært gagnvart hækkun iðgjalda á félagsmenn ASÍ,“ segir Gylfi og bætir við að bókun í samningi um hækkun iðgjalda sem átti að hefjast árið 2014 hafi frestast vegna óvissunnar.

„Það er það sem þessi vinna hefur strandað á, hvernig þessi halli verður fjármagnaður, ef það verður gert með því að hækka iðgjöld úr 15,5 prósentum  í 20 prósent þá er það afstaða atvinnurekanda að það sé ekki hægt að elta það," segir Gylfi.



„Það er sameiginlegur skilningur og einlægni um hvernig framtíðarfyrirkomulagið eigi að vera. Það er þó ljóst að það eru ýmis ljón á veginum varðandi hvernig megi gera upp fortíðina,"útskýrir Gylfi.

„Ef við eigum að bæta í kerfið til þess að ná fram jöfnuði þá er skilyrði að útkoman verði jöfnuður. Ef fjármagna á hallann með hækkun iðgjalda verður erfitt fyrir okkur að fylgja þeirri hækkun eftir,“ tekur Þorsteinn undir.

"Til að byrja með er vænlegast að hækka eftirlaunaaldur hins opinbera."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×