Skoðun

Um forsetann og veiðigjaldið

Valgerður Bjarnadóttir skrifar
Ekki kom ákvörðun forsetans um veiðigjöldin á óvart. Forsetinn er ekkert ólíkindatól, hann er sjálfum sér samkvæmur um að gera það sem honum sýnist þegar honum sýnist.

Blaðamannafundur forsetans kom hins vegar nokkuð á óvart. Hingað til hefur mér fundist forsetinn gæta þess að tala ekki niður til fólksins í landinu, þó hann hafi á stundum talað niður til stjórnvalda og löggjafans.

Nú lýsti hann undrun sinni á því að einhverjum hefði dottið í hug að hann mundi ekki staðfesta lögin. Það var ekki nokkur ástæða til að ætla það, samt tók hann á móti þeim sem stóðu að undirskriftasöfnunni á Bessastöðum, þó hann hefði alveg getað látið þá skila undirskriftunum á skrifstofuna. Svona er nú forsetinn alþýðlegur, mátti á honum skilja.

Forsetinn er fyrrverandi fjármálaráðherra, sagð´ann og fyrrverandi prófessor í stjórnmálafræði svo hann veit hvað hann er að gera. Ég er nú ekki alveg viss um að það sé vottorð upp á óskeikulleik að hafa gegnt hvoru tveggja virðulegum embættum, en látum það liggja á milli hluta.

Ummæli forsetans við forsvarsmenn undirskriftasöfnunnar um að ekki hafi verið hávær mótmæli við lækkun veiðigjaldsins eru mér umhugsunarefni. Í sama anda voru ummælin á blaðamannafundinum um stuttan ræðutíma um málið í þinginu.

Er forsetinn að mæla bót þeirri stjórnmálamenningu sem ríkti hér á síðasta kjörtímabili? Stjórnarandstaðan beitti málþófi í flestum málum, ekki bara í Icesave og stjórnarskrármálinu. Það jók ekki virðingu Alþingis.

Í einu orðinu tala forsetinn og ríkjandi stjórnvöld um víðtæka sátt og hinu orðinu er ekki nógu mikill hamagangur í andmælum.

Vissulega breytir veiðigjaldið ekki fiskveiðistjórnunarkerfinu, til þess þarf róttækari aðgerðir. Með veiðileyfagjaldinu fær eigandi auðlindarinnar, þjóðin, þó brot af arðinum af hagnýtingu hennar.

Um og yfir 70 % þjóðarinnar er á móti lækkun veiðigjaldsins og kvótakerfinu eins og það er útfært.

Í orðaforða forsetans og hinna nýju valdhafa er „víðtæk sátt“ að 70 % þjóðarinnar láti í minni pokann fyrir skoðunum forsetans og sérhagsmunaafla innan Sjálfstæðis- og Framskóknarflokks.




Skoðun

Sjá meira


×