Skoðun

Fumlaus handtaka

Gísli Jökull Gíslason skrifar
Mjög ofarlega í umræðunni í dag er handtaka lögreglumanns sem náðist á myndband. Umræðan er mjög á einn veg og orð eins og „ótrúlega harkaleg handtaka“ verið notuð. Myndskeiðið er aðgengilegt tölvulæsum einstaklingum. Lítið hefur þó verið fjallað um handtökuna af yfirvegun.

Byrjum á byrjuninni. Lögregla á Norðurlöndum er heimsþekkt fyrir að vera umburðarlyndasta lögregla í heimi og samstarfsmenn okkar á Norðurlöndum hafa oftar en einu sinni haft á orði að íslenska lögreglan sé vægari en þeir myndu líða. Við sem íslenskir lögreglumenn leyfum fólki í alls kyns ástandi og oft með ógnandi tilburði að koma mun nær okkur en vel sé án þess að bregðast við. Mun nær en við ættum frá einföldum öryggissjónarmiðum að leyfa.

Þá er rétt að benda á að það er afar sjaldgæft að einstaklingur slasist í höndum íslensku lögreglunnar. Svo sjaldgæft að það er fréttaefni ef það gerist, frekar en hitt að það er frásagnarvert hvað það gerist sjaldan.

Hluti af atburðarás

Í myndskeiðinu fáum við að sjá hluta af atburðarás. Við fáum ekki alla atburðarásina en við fáum hana nokkuð skýrt frá einu sjónarhorni. Kona tálmar för lögreglubifreiðar, lögreglubifreiðinni er ekið áfram þegar tækifæri gefst til en konan gengur samt ekki í burtu. Hún gengur þá að glugga ökumannsins sem í framhaldi stjakar henni frá með hurðinni.

Þá gerist eitthvað sem verður til þess að lögreglumaðurinn hleypur út úr bifreiðinni og handtekur konuna. Við það beitir hann viðurkenndu lögreglutaki sem íslenska lögreglan hefur tekið upp frá lögreglunni í Noregi.

Aðferðin er ekki hnökralaus að því marki að konan rekst í bekk sem er þarna, en allt annað er gert nákvæmlega eftir bókinni og ef vel er að gáð þá heldur lögreglumaðurinn efri hluta konunnar uppi til þess að koma í veg fyrir að höfuð hennar skelli í götuna.

Umburðarlynd lögregla

Ástæðan fyrir því að hún er dregin áfram snýr að því að tryggja líkamsstöðu þess sem verið er að handtaka þannig að það sé auðvelt að setja viðkomandi í handjárn og er hluti af aðferðinni. Vert er að benda á að sá tími sem líður frá því að lögreglumaðurinn grípur í konuna, hún er handjárnuð og komin inn í lögreglubifreiðina er 25 sekúndur. Það er nokkuð fumlaus aðgerð. Annað er ekki hægt að sjá af myndskeiðinu og verður því að flokkast sem getgátur og ég ætla mér ekki út í þær enda væri það vitlaust af mér sem öðrum.

Líkamleg valdbeiting lítur aldrei vel út, frá hvaða sjónarmiði sem hún er skoðuð. En hún getur verið fumlaus og eins hættulítil og völ er á og það á við um þetta myndskeið. Því þurfum við aðeins að fara rólega í það að básúna hugtök eins og ótrúlega harkaleg. Ekki síst ef við notum þau af vankunnáttu.

Starf lögreglumanna er ekki auðvelt. Lögreglumenn sem vinna á götunni þurfa að taka ákvarðanir oft bæði undir álagi og tímapressu. Það má til sanns vegar færa að eitt erfiðasta starf lögreglumanns sé að vinna á götunni og þar ertu jafnframt í langmestri hættu. Hættu á því að verða alvarlega slasaður eða átt á hættu að verða dreginn fyrir dómstóla fyrir það að vinna vinnu þína í góðri trú. Við Íslendingar búum í einu öruggasta landi í heimi og eigum eina umburðarlyndustu lögreglu sem til er. Gerum því ekki úlfalda úr mýflugu og förum varlega í stóru orðin þegar við dæmum aðra.
Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.