Skoðun

List- og verknám í framhaldsskólum

Kristinn Þorsteinsson skrifar
Í aðdraganda kosninga og á síðustu vikum hefur verið mikið rætt um list- og verknám í framhaldsskólum. Má á mörgum skilja að skortur á slíku námi standi nemendum fyrir þrifum og sé jafnvel meginorsök brottfalls og vanlíðunar nemenda á þessum aldri.

Nú er alls ekki ætlun mín að gera lítið úr alvarleika brottfalls en bendi þó á að nauðsynlegt er að rýna vel í þær tölur til að átta sig á umfangi vandamálsins í heild.



Þegar kemur að framboði á list- og verknámi þá er það svo að framboðið á því á er umtalsvert. Tækniskólinn og Iðnskólinn í Hafnarfirði hafa öflugar listnámsbrautir, ásamt því að bjóða upp á fjölbreytt verknám. Borgarholtsskóli, Fjölbrautaskólinn í Breiðholti og Fjölbrautaskólinn í Garðabæ bjóða allir upp á öflugar listnámsbrautir og útskrifa á hverri önn hóp nemenda sem hafa öðlast góðan grunn í hinum ólíku listgreinum. Verkmenntaskólinn á Akureyri og Menntaskólinn á Tröllaskaga bjóða einnig báðir upp á listnám og fleiri skóla mætti nefna.



Í bráðabirgðahúsnæði

Þegar rætt er um að stofna sérstakan listamenntaskóla vill gleymast að listaskólar eru þegar til og hafa umtalsverða kosti umfram sérstaka listamenntaskóla, sem er að allir nemendur þessara skóla geta auk bóknáms eða verknáms bætt við sig áföngum í listgreinum. Í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ getur nemandi á náttúrufræðibraut lokið námi af þeirri braut ásamt því að hafa að baki 21 einingu í listnámi sem er tæplega einn sjöundi af námi hans í skólanum.



Framboð af listnámi er í raun fjölbreytt. Í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ er boðið upp á listnám í fata- og textílgreinum, leiklist og myndlist, auk þess sem skólinn býður upp á hönnunar- og markaðsbraut. Á þessu ári verður lokið við að hanna styttri útgáfur af öllum þessum brautum, sem nemendur geta brautskráðst af eftir tveggja til þriggja ára nám.



Framboð af listnámi, og verknámi einnig, er því talsvert á framhaldsskólastigi. Það sem vantar er að gera því hærra undir höfði í umræðunni og í samfélaginu í heild. Foreldrar verða að átta sig á að námsferill í list- og verkgreinum er ekki síðri en í bóknámi.



Stjórnvöld verða að setja nægjanlegt fjármagn í listnám. Fjölbrautaskólinn í Garðabæ hefur frá upphafi boðið upp á listnám í bráðabirgðahúsnæði. Árið 2008 var búið að teikna viðbyggingu við skólann sem átti að hýsa list- og verknám. Þau áform voru lögð á hilluna í kjölfar hrunsins. Nú er tækifæri til að blása rykið af þessum teikningum og hefja framkvæmdir við nýja viðbyggingu við Fjölbrautaskólann í Garðabæ og sýna þannig í verki áhuga á að efla list- og verknám á Íslandi.



Það þarf ekki að stofna sérstakan listamenntaskóla á Íslandi. Þessir skólar eru til nú þegar og hafa fjölbreytt úrval og öflugt nám upp á að bjóða. Við þurfum að efla veg og virðingu þessa náms ásamt því skapa listaskólum þessa lands aðstöðu og tæki til að efla þetta nám enn frekar.




Skoðun

Sjá meira


×