Skoðun

Stjórnmálastarfsemi fyrirtækja?

Margrét S. Björnsdóttir skrifar
41 milljón króna fór frá íslenskum útgerðarfélögum til Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og frambjóðenda þeirra árin 2008-2011 og prófkjörsframbjóðenda Sjálfstæðisflokks fyrir þingkosningar 2013. Það er tífalt hærra en aðrir flokkar fengu til samans. Framlög til flokkanna 2012 liggja ekki fyrir. Þetta hefur Hörður Unnsteinsson stjórnmálafræðinemi tekið saman í nýrri BA-ritgerð.

Eitt fyrsta verk sömu flokka, í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, er að lækka veiðileyfagjald útgerðarfyrirtækja um alls 10 milljarða á þessu ári og því næsta. Meðan ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna undirbjó hækkun á veiðileyfagjaldi eyddu útgerðir landsins og samtök þeirra a.m.k. milljónatugum í auglýsingar og aðgerðir gegn þeim áformum.

Þrjú af stærstu útgerðarfyrirtækjum landsins, Ísfélagið í Vestmannaeyjum, Samherji og Kaupfélag Skagfirðinga á Sauðárkróki í gegnum dótturfélag, hafa keypt Morgunblaðið ásamt fleirum og sett í það hundruð milljóna, sem engan fjárhagslegan arð bera. Ráðið í ritstjórastól einn öflugasta stjórnmálamann samtímans, Davíð Oddsson, sem ritstýrir blaðinu daglega í þeirra þágu.

Allt eru þetta smáaurar fyrir að hafa til þessa haft nær ókeypis aðgang að sameiginlegri auðlind Íslendinga. Jón Steinsson hagfræðingur hefur reiknað út að auðlindaarður útgerðarinnar þessi sömu ár, þ.e. 2008-2011, hafi árlega verið á bilinu 38-56 milljarðar króna eða hátt í tvö hundruð milljarðar. Þá er búið að draga frá allan tilkostnað og eðlilegan arð af fjárfestingum. Reikna megi með að talan sé hærri fyrir 2012. Ef ekki væri fyrir lög um upplýsingaskyldu um fjárframlög til stjórnmálastarfsemi, sem tóku gildi 2007, myndum við ekki vita um milljónatugina sem runnið hafa til Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og þeirra frambjóðenda.

Eftir áðurnefnda auglýsingaherferð LÍÚ og útgerðarfyrirtækjanna hef ég mikið velt fyrir mér spurningunni: Þarf að útvíkka upplýsingaskyldu um fjárreiður stjórnmálastarfsemi til fyrirtækja sem blanda sér beint í stjórnmálabaráttu?

Í Bandaríkjunum, þar sem strangar reglur eru um takmörk og upplýsingaskyldu um fjárframlög til stjórnmálaflokka, er orðinn vaxandi vandamál fjáraustur alls konar hliðarsamtaka (political action committees), sem í dag eyða meira fé til stjórnmálabaráttu en flokkarnir sjálfir og þeirra frambjóðendur en lúta engum takmörkunum.




Skoðun

Sjá meira


×