Skoðun

Karllæg gildi og „mjúk“ mál

Eygló Harðardóttir skrifar
Mat okkar á mikilvægi verkefna endurspeglast meðal annars í launakjörum. Nýlega benti ég á mismun á launum formanna í stjórnum á vegum ríkisins og tók dæmi um laun fyrir stjórnarsetu í Fjármálaeftirlitinu (FME) og Tryggingastofnun ríkisins (TR). Ég benti á að allt að tífaldur munur væri á launum þeirra. Ég fór reyndar rangt með upplýsingar um laun stjórnarformanns FME, sem leiðrétti mál mitt í grein í Fréttablaðinu og hafi hann þökk fyrir það. Hann sagði ástæðu hárrar greiðslu þegar hann tók við formennskunni í júní 2011 hafa legið í mikilli vinnu vegna endurreisnar fjármálakerfisins og FME. Hann hefði sjálfur óskað eftir launalækkun haustið 2012 úr 600.000 í 400.000 kr. þar sem starfinu miðaði vel og líklegt var að álag myndi minnka.



Þótt leiðréttingunni sé til skila haldið breytir niðurstaðan ekki því að hróplegur munur er enn á launum fyrir stjórnarformennsku hjá FME og TR, þar sem formaðurinn fær ríflega 60 þús. kr. á mánuði. Ég ætla ekki að dæma um hvað er hæfileg greiðsla fyrir formennsku í þessum stjórnum. Fyrst og fremst bendi ég á að sá margfaldi munur sem þarna er á greiðslum vekur furðu og getur ekki byggst á skynsamlegu eða raunhæfu mati á ábyrgð, umfangi verkefna eða mikilvægi þeirra.



Ég tel augljóst að hér búi að baki gamaldags og úrelt karllæg viðhorf um hin meintu hörðu fjármál og mjúku velferðarmál.



Þessu verður að breyta

Stjórnarformaður FME tekur undir með mér um að löngu sé tímabært að við áttum okkur á að velferðarmál eru ekki mjúkur málaflokkur og skrifar: „Stundum kann að eiga við að lækka laun, eins og ég hef gert í tilfelli stjórnarformanns FME, og víða þarf að hækka laun í störfum við velferðarmál.“ Þessu er ég algjörlega sammála og ég geri ráð fyrir að margir deili með okkur þessari skoðun.



Fyrir nokkru var lokið við gerð jafnlaunastaðals sem unnið hefur verið að á liðnum árum. Aðgerðahópur á vegum stjórnvalda og samtaka aðila vinnumarkaðarins vinnur að innleiðingu staðalsins, sem ég vona að reynist gott tæki til að eyða kynbundnum launamun, breyta viðhorfum og leggja skynsamlegan grunn fyrir réttmætar launaákvarðanir.




Skoðun

Sjá meira


×