Skoðun

Stefna eða stefnuleysi

Ásta Hafberg S. skrifar

Ísland hefur ekki þörf fyrir að hér verði hver einasta lækjarspræna virkjuð og stóriðja rísi hægri vinstri.

Vandamálið við þessa hugmyndafræði í atvinnuuppbyggingu, burtséð frá öðrum sjónarmiðum, er sú að hún skilar ekki miklu þegar til lengri tíma er litið. Hún er of einhæf þegar kemur að atvinnuþróun og hagvaxtaráhrifin eru ekki stöðug til langs tíma.

Afleidd störf eru til staðar en spurningin er kannski á kostnað hvers þau eru. Einnig má velta alvarlega fyrir sér að þegar svo einhæf atvinnuuppbygging og þróun á sér stað í svona litlu samfélagi hve viðkvæmt það verður fyrir utanaðkomandi áhrifum á markaði og í efnahagslífi.

Ef litið er austur til Reyðarfjarðar virðist það vera svo að afleidd störf hafi fæðst á þann máta að smiðjur, rafvirkjar, bílaverkstæði og aðrir verktakar hafi mikið til sameinast af fjörðunum og stofnað stærri fyrirtæki sem voru nógu stór til að þjónusta álverið.

Þetta þýddi að störf sem voru til fyrir álversbyggingu fluttust öll á einn stað í stað þess að vera dreifð um firðina.

Auðvitað er viss hagræðing í þessu en þetta gerir það að verkum að firðirnir í kringum Reyðarfjörð verða að einhvers konar svefnþorpum með lítið sem ekkert atvinnulíf.

Heildstæð stefna

Sem betur fer hefur líka önnur þróun átt sér stað þarna, það er að firðir eins og til dæmis Fáskrúðsfjörður hafa lyft grettistaki í að koma af stað „einhverju öðru“.

Í þeirra tilfelli er þetta „eitthvað annað“ að halda lífi í Franska safninu, vera með í að fá Franska spítalann aftur inn í þorp og byggja hann upp og síðast en ekki síst setja á stofn handverksmarkað. Þetta er heildstæð stefna sem til lengri tíma mun gefa samfélaginu á Fáskrúðsfirði meiri stöðugleika í atvinnuþróun og vexti. Afleidd störf geta orðið þó nokkur. Til dæmis má nefna öflugt tjaldsvæði, matsölustaði, gistiheimili, fleiri markaði, skipulagðar göngur um fjöll og firnindi með leiðsögn og svo má lengi telja.

Það góða við þessa þróun er að þó að eitt fyrirtæki fari halloka eða lendi í fjárhagslegum vandræðum þá verða hin ekki sérstaklega fyrir áhrifum af því og munu halda lífi.

Ef Alcoa á Reyðarfirði fer á hausinn þá er þorri þeirra sem starfa við álverið eða í afleiddum störfum atvinnulaus.

Því miður skil ég vel af hverju álver reis á Reyðarfirði. Ástæðan fyrir því að það reis var einfaldlega sú að Ísland og íslenskt samfélag líður fyrir áratuga stefnuleysi í atvinnuþróunarmálum, fyrirtækjarekstri og fyrirtækjamenningu. Það var aldrei búin til nein heildarstefna sem tók mið af fjölbreytileika í atvinnurekstri á landsvísu. Það var aldrei sett upp neitt sem hafði lengri líftíma en fjögur ár í þessum efnum, engin umhverfisstefna til langframa, engin stefna yfirhöfuð.

Svo lengi sem þessu verður haldið áfram mun Ísland bara enda eins og enn eitt landið þar sem skammsýni stjórnmálamanna og vinsældaveiðar þeirra ráða ríkjum.

Er þetta í alvöru það sem við viljum?




Skoðun

Sjá meira


×