Skoðun

Þurfum við betri vinnustaði?

Sigrún Gunnarsdóttir skrifar

Getur verið að þrátt fyrir landsþekktan dugnað og vinnusemi gætum við staðið okkur betur í vinnunni? Getur verið að öll seiglan gæti skilað okkur betri vellíðan í vinnu, meiri framleiðni og hagkvæmari rekstri? Ef marka má kannanir undanfarna mánuði eru ýmis ónotuð tækifæri á vinnustöðum hér á landi til að ná betri árangri. Framleiðni almennt er til dæmis minni hér á landi en í öðrum löndum. Á sama tíma hefur þreyta meðal starfsfólks hér sjaldan verið eins áberandi.

Nú er lag að skoða þessar staðreyndir og leita ráða í þekkingarbrunnum. Eitt af því sem fræðimenn hér á landi og erlendis hafa ítrekað bent á er að mikilvægasti þátturinn til að ná árangri á vinnustöðum er stjórnunaraðferðir. Rannsóknir sýna endurtekið að næsti yfirmaður hefur langmest áhrif á það hvernig starfsmanni gengur að vinna störf sín og hvernig starfsmanninum líður í vinnunni. Framhjá þessari staðreynd verður vart gengið. Stjórnun og forysta hafa úrslitaáhrif.

Með þessa staðreynd í huga, að næsti yfirmaður hafi mest áhrif á vellíðan og virkni í vinnu, er nærtækast að horfa þangað eftir leiðum til að bæta árangur vinnustaða hér á landi. Það er líka nærtækast að skoða forystu fyrirtækja og stofnana til að svara ákalli Rannsóknarskýrslunnar um fagmennsku, siðgæði og traust.

Úrslitaáhrifin

Hvort sem okkur líkar það betur eða verr eru það stjórnendur og leiðtogar sem hafa úrslitaáhrif á framleiðni fyrirtækja og stofnana. Leiðtoginn hefur bein áhrif á að virkja starfsfólk til góðra verka og getur gert starfsfólki kleift að njóta sín í starfi. Ein leið að þessu marki er að líta á stjórnandann og leiðtogann sem þjón. Líta svo á að stjórnandinn hafi fyrst og fremst það hlutverk að skapa aðstæður og samskipti þar sem kraftar og þekking starfsfólks njóta sín. Þetta sé mikilvægara en vegsauki og frami leiðtogans. Hlutverk stjórnandans sé að auka frelsi starfsfólksins eins og kostur er, lyfta starfsfólki upp, gera því kleift að blómstra í starfi og þannig ná árangri sem skilar vellíðan, virkni og framleiðni.

Þegar stjórnandinn lítur á hlutverk sitt sem þjónustu við starfsfólk og fyrirtæki kemur allt annað af sjálfu sér. Þessi orð hafa verið margsönnuð í fyrirtækjum hérlendis og erlendis. Árangur vex, samskipti eru betri, sameiginleg sýn á tilgang verkefna skerpir aga og rekstur verður hagkvæmari. Fyrirtæki sem nota þjónandi forystu (e. servant leadership) í starfsmannamálum, stefnumótum og gæðamálum skila betri afkomu en gengur og gerist og starfsfólki þar líður betur en gengur og gerist.

Þann 14. júní næstkomandi gefst tækifæri til að kynnast þessum áhugaverðu hugmyndum í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsinu þar sem erlendir og hérlendir sérfræðingar ræða um árangursríka stjórnun og farsæl starfsmannamál í ljósi þjónandi forystu. Aðalfyrirlesarinn er Margaret Wheatley sem er höfundur metsölubóka um þessar nýju aðferðir í stjórnun. Nú sem aldrei fyrr eru hugmyndir sem byggja á umhyggju fyrir velferð annarra, siðgæði og samfélagslegri ábyrgð mikilvægar og dýrmætar fyrir uppbyggingu á vinnustöðum og fyrir samfélagið allt.




Skoðun

Sjá meira


×