Skoðun

Já 118 – svör við öllu

Þorvaldur Þorvaldsson skrifar

Alþýðufylkingin kom með nýja rödd inn í nýafstaðnar kosningar. Rödd sem lengi hefur vantað í íslenska stjórnmálaumræðu. Þó að uppskeran úr kjörkössunum hafi aðeins verið 118 atkvæði þá endurspeglar það hvorki áhrif Alþýðufylkingarinnar né mikilvægi. Á niðurstöðunni eru margar skýringar. Þar sem okkur tókst ekki að bjóða fram nema í Reykjavík var ljóst að við ættum varla möguleika á að rjúfa 5% múrinn. Það út af fyrir sig beindi mörgum á aðrar slóðir.

Sú staðreynd að stefna okkar og málflutningur gengur ekki út frá viðteknum hugmyndum heldur róttækum samfélagsbreytingum þýðir einnig að margir þurfa dálítinn tíma til að ganga til liðs við okkur og greiða okkur atkvæði þrátt fyrir jákvæðar undirtektir. Stærsti kosningasigurinn felst hins vegar í því að sjónarmið okkar skyldu komast á framfæri og ná eyrum þúsunda.

Það sem gerir málflutning Alþýðufylkingarinnar sérstakan er að hann afhjúpar að vandi samfélagsins felst ekki í ónógri framleiðni heldur botnlausu arðráni frá alþýðunni og ójöfnuði sem af því leiðir. Enn fremur er krafan um stöðugan hagvöxt helsta ógnin við vistkerfi heimsins. Á meðan Vinstri græn tala fyrir hagvexti í umfjöllun um efnahags- og atvinnumál en gegn hagvexti í umfjöllun um umhverfismál, og enginn veit hvort heldur er afstaða flokksins, tölum við sama máli í öllum málaflokkum og meinum það sem við segjum. Það þarf engan hagvöxt til að bæta kjör almennings, bara jöfnuð. Til þess er líka nauðsynlegt að félagsvæða fjármálakerfið til að það hætti að soga til sín öll verðmæti í hagkerfinu. Reynsla undanfarinna missera hefur sýnt fram á þetta og framvindan á næstunni mun gera það enn frekar.

Alþýðufylkingin hefur því alla möguleika á að verða sameiningarafl vinstra fólks og umhverfisverndarsinna. Við hvetjum þá 118 hugrökku kjósendur í Reykjavík sem greiddu Alþýðufylkingunni atkvæði sitt til að ganga í lið með okkur ef þeir eru það ekki nú þegar. Auk þess skorum við á vinstra fólk á öllu landinu að sameinast um þau samtök sem ekki hafa eina sýndarstefnuskrá og aðra í reynd, heldur tala skýru máli um það hvað gera þarf til þess að nauðsynlegar og réttlátar þjóðfélagsbreytingar geti náð fram að ganga. Það er Alþýðufylkingin.




Skoðun

Sjá meira


×