Skoðun

Skuggi yfir Austurvelli

Lára Óskarsdóttir skrifar

Þegar gefa á leyfi fyrir auknu byggingamagni á þrengri svæðum innan borgarinnar verður að spyrja: Hvaða afleiðingar hafa slík áform til frambúðar? Það sem drífur mig í þessi skrif er ótti gagnvart andvaraleysi og arðsemissjónarmiðum einstakra aðila. Þess háttar drifkraftur hefur oft orðið til þess að borgarbúar sitja uppi með lélega fjárfestingu.

Páll Óskar Hjálmtýsson hefur barist fyrir verndun Nasa og styð ég hans sjónarmið. Að mínu viti geymir húsið ákveðna sögu borgarinnar sem ég tel einstaka. Þessi skipulagsbreyting við Austurvöll er ekki fyrsta þrætuepli hagmunaaðila. Við skulum ekki gleyma að á sínum tíma voru uppi áform um að rífa Bernhöftstorfuna. Hvernig liti bæjarmyndin út, upp í brekkuna, ef það hefði gengið eftir?

Á heimasíðu Torfusamtakanna má lesa: „Ævintýrið byrjaði árið 1973 þegar nokkrir einstaklingar, með auga fyrir sérstakri fegurð gamalla íslenskra húsa og áhuga á menningarsögulegum verðmætum þeirra, björguðu Bernhöftstorfunni frá niðurrifi með því að mála hana alla á einni nóttu.“ Ef þessi barátta hefði ekki átt sér stað stæðu líklega byggingar frá áttunda áratugnum í stað Torfunnar.

Ég skora á borgaryfirvöld að draga leyfi fyrir auknum byggingum við Austurvöll til baka. Ég tek undir með Helga Þorlákssyni sem ritar í grein Morgunblaðinu þann 18. maí: „Enn meira skuggavarp verður af nýrri hótelbyggingu á horni Austurvallar og Kirkjustrætis og þrengir mjög að húsum Alþingis.“ Það er skiljanlegt að eigendur vilji hámarka arð af lóðum sínum. Hitt er aftur á móti illskiljanlegt að borgarstjórnarmeirihluti Reykjavíkur ætli að gefa leyfi fyrir auknu byggingamagni á þessu „frímerki“. Austurvöll má líta á sem vin í malbikuðum veruleika borgarinnar. Slík svæði ber að vernda.




Skoðun

Sjá meira


×