Skoðun

Sorglegt Evrópumet samkvæmt afleitu skipulagi

Áshildur Haraldsdóttir skrifar

Hvergi í 46 löndum Evrópu er að finna hótel svo nálægt alþingishúsi eins og stefnt er að í Reykjavík, nái skipulag sem borgin hefur nú í kynningu fram að ganga. Þar er farið fram á að hinu sögufræga Sjálfstæðishúsi (Nasa) verði fórnað til að rýma fyrir stóru og miklu hóteli sem mun teygja sig frá Ingólfstorgi að Kirkjustræti.

Hótel Borg stendur þegar óvenju nálægt þinghúsinu, í um 70 m fjarlægð í sátt og samlyndi. Hætt er við að það jafnvægi raskist með tilkomu nýja hótelsins en það mun þrengja að Alþingishúsi Íslendinga, og standa nær því (um 50 m) en dæmi eru til annars staðar í Evrópu samkvæmt Google Maps. Það sem gerir þetta verra er að hótelið verður einnig afar nálægt Dómkirkjunni og mun skyggja á vinsælasta samkomustað þjóðarinnar, hinn forna Austurvöll.

Þetta skipulagsslys mun skerða lífsgæði Reykvíkinga en einnig verða til ama fyrir markhópinn; ferðamenn sem sækja Reykjavík heim til að kynnast séríslenskri miðborgarstemningu en fyrirfinna í staðinn bragðlítinn ferðamannaiðnað og risahótel. Ég skora á alla að senda mótmæli við þessari tillögu að deiliskipulagi á skipulag@reykjavik.is fyrir 30. maí.




Skoðun

Sjá meira


×