Skoðun

Merkur stjórnmálamaður og ríkisstjórn kveðja

Margrét S. Björnsdóttir skrifar

Árið 2009 lét Jóhanna Sigurðardóttir undan þrábeiðni forystu Samfylkingarinnar og tók við tröllauknustu viðfangsefnum stjórnmála lýðveldistímans. Til hennar var leitað vegna heiðarleika hennar, heilinda og árangurs í þágu jafnaðarstefnunnar með annálaðri vinnusemi. Aldrei hafði fallið skuggi spillingar á hennar störf, hvorki í smáu né stóru.

Eftir myndun ríkisstjórnarinnar fylgdumst við síðan með úr návígi, hvernig hún unni sér ekki hvíldar í einbeittri baráttu fyrir betra Íslandi og betri kjörum tekjulágra. Ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna glímdi við fordæmalaus úrlausnarefni eftir gjaldþrot og spillingu 12 ára helmingaskiptastjórnarfars Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Það er sorglegt að þeim síðarnefndu skuli nú falin stjórn landsins, en vinstri- og umbótasinnar séu margklofnir.

Ótrúlegur fjöldi umbóta

Mestur kraftur ríkisstjórnarinnar fór í að ná tökum á efnahags- og ríkisfjármálum og árangur vannst sem enginn deilir um nema pólitískir andstæðingar.

Samhliða náðist fram fjöldi mikilvægra umbóta. Jóhanna Sigurðardóttir var þar auðvitað ekki ein að verki, en það skiptir máli hver veitir forystu og það gerði hún sannarlega í traustu samstarfi við Steingrím J. Sigfússon, ráðherra og þingmenn flokkanna: Jöfnuður jókst með breyttri skattastefnu og er orðinn mestur innan OECD. Barna- og vaxtabætur voru stórhækkaðar, sem er lykilatriði fyrir tekjulága. Eftir áratuga hirðuleysi verða tannlækningar barna ókeypis.

Börn fátæks fólks fara ekki lengur brennimerkt skemmdum tönnum út í lífið. Barnasáttmáli SÞ fékk loks lagagildi. Sjálfstæði Palestínu viðurkennt. Sanngirnisbætur til fórnarlamba ofbeldis á upptökuheimilum loks greiddar, of seint fyrir of marga sem látnir voru, langt um aldur fram. Kaupmáttur námslána var hækkaður um 10,7%.

Illræmd eftirlaunalög afnumin. Útgerðir greiða nú loks auðlindarentu til þjóðarinnar. Rammaáætlun, lög um náttúruvernd og dýravelferð samþykkt. Vændiskaup bönnuð og aðgerðir gegn kynbundnu ofbeldi stórauknar. Hlutur kvenna í ríkisstjórn og æðstu embættum jafnaður, lög sett um jafnan hlut kynja í stjórnum fyrirtækja. Stjórnsýslan gerð skilvirkari með fækkun ráðuneyta og stofnana, og upplýsingaskylda þeirra stóraukin.

Enginn flokksgæðingur ráðinn sendiherra. Pólitískum ráðningum dómara úthýst með nýjum lögum og fagnefndir notaðar við ráðningu æðstu embættismanna í stað pólitískrar handstýringar. Framtíðarstefnumótun var heldur ekki vanrækt: ESB umsóknin, Ísland2020 áætlunin og Samráðsvettvangur um aukna hagsæld setti fram hundruð umbótatillagna vorið 2013. Við þökkum Jóhönnu hennar mikla starf á löngum stjórnmálaferli. En hún er bara sjötug, með mikið starfsþrek og næg verkefni fram undan hjá okkur jafnaðarmönnum. Ég hlakka til samstarfs við hana.




Skoðun

Sjá meira


×