Skoðun

Stalínísk stórmennska í Gálgahrauni

Vegagerðin og Garðabær hafa skilað innanríkisráðherra greinargerð vegna nýs Álftanesvegar um Gálgahraun. Í greinargerðinni er því hafnað að hægt sé að koma til móts við óskir Hraunavina og annarra náttúruverndarsinna um annað vegstæði.

Hugsanlegt sé þó að í stað mislægra gatnamóta megi setja hringtorg austan við Prýðahverfi. Greinargerðin ber þess vitni að Vegagerðin og Garðabær skilja ekki á hvaða grundvallaratriði andstaðan við nýjan Álftanesveg um Gálgahraun byggir.

Framkvæmdaaðilar neita að horfast í augu við þá staðreynd að allt hraunið norðan Álftanesvegar er á náttúruminjaskrá sem er ígildi friðunar. Aðeins á eftir að ákveða í hvaða friðunarflokk hraunið á að fara. Orðið náttúruminjaskrá kemur ekki fyrir í greinargerðinni enda hefði það þýtt að allur rökstuðningur fyrir vegarlagningunni hefði misst marks.

Við nýju greinargerðina er ýmislegt að athuga. Vegagerðin gerir enga tilraun til þess að koma með tillögu að bættum núverandi Álftanesvegi með hringtorgum og umferðarstýrðum ljósum eins og tíðkast um víða veröld. Svo virðist sem engin framför hafi orðið í gerð umferðarmannvirkja frá því að starfsmenn Vegagerðarinnar luku námi um miðja síðustu öld.

Eina lausnin sem þeir sjá er að að eyðileggja einstakt ósnortið hraun. Vegagerðin var beðin um að koma með lausn sem kæmi til móts við þá sem vilja hlífa hrauninu en varð ekki við þeirri beiðni. Brengluð fjárhagshlið Fjárhagshlið greinargerðarinnar er brengluð. Þar eru aðeins tveir kostir bornir saman: óbreyttur vegur um Gálgahraun fyrir 800 milljónir eða að núverandi Álftanesvegur verði lagður í stokk fyrir þrjá milljarða.

Þessu er haldið fram í þeirri von að almenningur þekki ekki umfang framkvæmdarinnar. Sannleikurinn er sá að það er ekki aðeins verið að leggja nýjan einfaldan Álftanesveg fyrir 800 milljónir. Þetta er fyrsti áfangi af þremur sem fékk reyndar 1,1 milljarð á fjárlögum til þriggja ára, ekki 800 milljónir. Annar áfangi er tvöföldun Álftanesvegar frá Engidal að stóru hringtorgi í miðju Gálgahrauni og þriðji áfangi verður framlenging Vífilsstaðavegar frá norðri til suðurs þvert yfir Gálgahraun.

Miðað við kílómetrafjölda munu rúmir tveir milljarðar króna fara í vegaframkvæmdir í Gálgahrauni. Þá er ótalinn milljónakostnaður vegna hljóðmana sem hljóta að verða settar upp við báðar hraðbrautirnar.

Vegagerðin og Garðabær sáu ekki ástæðu til þess að kalla Hraunavini til viðræðna svo finna mætti lausn á legu Álftanesvegar. Í stað þess skal látið sverfa til stáls af stalínískri stórmennsku. Gaman verður að sjá hver það verður sem ræsir fyrstu jarðýtuna í Gálgahrauni og leggur til atlögu við klettaborgirnar. Þá mega álfar og dvergar fara að vara sig. Og man nokkur hvað verður um þann sem svíkur sína huldumey?




Skoðun

Sjá meira


×