Skoðun

Grindavíkurbær sinnir náttúruvernd betur

Róbert Ragnarsson skrifar

Undanfarið hefur verið nokkur umfjöllun um náttúruvernd á Reykjanesskaga og er það mjög ánægjulegt. Grindavíkurbær er landmesta sveitarfélagið á Reykjanesi og eru margar af perlum svæðisins innan skipulagsmarka bæjarins. Grindavíkurbær hefur tekið það hlutverk sitt mjög alvarlega að huga vel að náttúruperlum svæðisins með því að vinna mjög metnaðarfullt aðalskipulag sem byggir á auðlindastefnu sem samþykkt var 2010. Grindavíkurbær var fyrst sveitarfélaga á Íslandi til að kortleggja auðlindir sínar og samþykkja stefnu um nýtingu þeirra og verndun.

Auðlindastefna Grindavíkurbæjar er í öllum meginatriðum í samræmi við Rammaáætlun um vernd og nýtingu orkuauðlinda sem Alþingi hefur unnið að síðastliðin 20 ár og var nýlega samþykkt. Hverfisvernd Í umræðunni er látið líta svo út að í Reykjanesfólkvangi liggi mikil náttúruvernd sem Grindavíkurbær vilji nú aflétta svo orkufyrirtæki geti komið þangað inn með vinnuvélar. Hvort tveggja er rangt. Undirritaður birti grein í Fréttablaðinu 1. mars sl. til að svara þeirri umræðu og leiðrétta misskilning, en það virðist ekki duga.

Rangfærslan er ítrekuð í grein Ellerts Grétarssonar í Fréttablaðinu þann 6. maí síðastliðinn. Í Reykjanesfólkvangi eru afar takmörkuð ákvæði um verndun náttúrunnar og beinlínis heimilt að virkja jarðvarma. Auk þess er ein stærsta jarðvegsnáma landsins starfrækt innan fólkvangsins. Því má ljóst vera að verndunarsjónarmið hafa ekki verið í hávegum höfð innan Reykjanesfólkvangs þau tæplega fjörutíu ár sem hann hefur verið starfræktur. Til samanburðar má nefna að í aðalskipulagi Grindavíkurbæjar eru mun skýrari ákvæði um verndun gígaraðarinnar í Eldvörpum. Uppbygging Takmarkaðar framkvæmdir hafa verið innan fólkvangsins til að taka við auknum fjölda ferðamanna og verja þannig náttúruna fyrir átroðningi.

Stjórn fólkvangsins hefur af veikum mætti sinnt landvörslu og byggt upp lágmarksaðstöðu í Seltúni og ber að hrósa þeim fyrir það. Til samanburðar má nefna að Grindavíkurbær, Bláa lónið og HS orka hafa í sameiningu lagt margfalt meira fé í stígagerð í Svartsengi en sem nemur öllu rekstrarfé Reykjanesfólkvangs. Það verkefni er hluti af samstarfi sveitarfélaga og ferðaþjónustuaðila á svæðinu um Reykjanes jarðvang (e. Geopark). Grindavíkurbær hafði frumkvæði að stofnun jarðvangsins, en umræða um stofnun slíks garðs á Reykjanesi hefur staðið í áratugi án þess að raungerast. Grindavíkurbær er þannig að sinna náttúruvernd og uppbyggingu fyrir ferðamenn mun betur en gert er innan Reykjanesfólkvangs. Engin orkuvinnsla er fyrirhuguð í fólkvanginum innan skipulagsmarka Grindavíkur. Ekki er fyrirhuguð orkuvinnsla innan skipulagsmarka Grindavíkurbæjar í fólkvanginum. Slík vinnsla er hins vegar fyrirhugað í landi Hafnarfjarðar og sem fyrr segir setur fólkvangsskilgreiningin engar hömlur á þá orkuvinnslu.

Ákvörðun Grindavíkurbæjar um að hefja viðræður við Reykjavíkurborg, Reykjanesbæ, Hafnarfjarðarbæ, Kópavogsbæ, Garðabæ og Seltjarnarneskaupstað um mögulega útgöngu Grindavíkurbæjar úr Reykjanesfólkvangi hefur skilað þeim árangri að málið er komið á dagskrá og áhugi hinna sveitarfélaganna á málinu orðinn meiri. Grindavíkurbær hefur þannig enn sýnt að það eru fá sveitarfélög sem hafa meiri áhuga á náttúru Reykjanesskagans. Að mati undirritaðs ætti frekar að hampa því sem gert hefur verið í Grindavík í náttúruvernd og uppbyggingu fyrir ferðamenn og hvetja önnur sveitarfélög til að fylgja fordæmi okkar.




Skoðun

Sjá meira


×