Skoðun

Reykjanesfólkvangur lagður niður?

Ellert Grétarsson skrifar
Nýjasta útspilið í hernaðinum gegn náttúru Reykjanesskagans er hugmyndir um að leggja niður Reykjanesfólkvang.

Miklir kærleikar hafa tekist með bæjaryfirvöldum í Grindavík og erlenda orkufyrirtækinu HS Orku. Ein birtingarmynd þess er glórulausar hugmyndir um virkjun í Eldvörpum samkvæmt svokallaðri auðlindastefnu bæjarins, sem í stuttu máli gengur út á að virkja allt sem hægt er að virkja innan landamerkja sveitarfélagsins.

Þá hafa þessir aðilar, Grindavíkurbær og HS Orka, unnið að stofnun jarðvangs (GeoPark) á Reykjanesi. Bæjaryfirvöld í Grindavík vilja sem sagt að hann komi í stað fólkvangsins. En hvers vegna þarf Reykjanesfólkvangur að víkja fyrir jarðvangi? Af hverju getur þetta tvennt ekki farið saman?

Reykjanesfólkvangur var friðlýstur sem fólkvangur árið 1975. Friðlýsingin var reyndar all takmörkuð og náði í rauninni yfir fátt annað en bann við utanvegaakstri. Í raun var verið að taka svæðið frá sem útivistarsvæði þangað til annað kæmi í ljós. Þar er nefnilega jarðhiti og ýmsir sem hafa hugsað sér gott til glóðarinnar með hann.

Það breytir því ekki að fólkvangar hafa ákveðinn sess í hugum fólks. Hugtakið sjálft segir okkur að eitthvað sé varið í náttúru svæðisins úr því að ákveðið var að kalla það fólkvang. Þannig er það nokkurs konar ígildi þjóðgarðs í hugum okkar – eitthvað sem ætti að umgangast af nærgætni og virðingu. Fjallað er um fólkvanga í lögum um náttúruvernd og umhverfisábyrgð.

Orðið jarðvangur kemur hins vegar ekki fyrir í íslenskum lögum og European Geoparks Network gerir engar sérstakar kröfur um náttúruvernd og friðun innan jarðvanga. Orðið jarðvangur er nýtt fyrirbæri sem hefur enga sérstaka merkingu í huga almennings. Það hefur fólkvangur hins vegar.

Þá komum við að kjarna málsins. HS Orka hyggur á miklar virkjanaframkvæmdir innan marka Reykjanesfólkvangs. Þegar vinnuvélarnar streyma þangað verður kannski dálítið óþægilegt að hugtakið „fólkvangur“ sé að þvælast fyrir. Þess vegna er auðvitað best að búið verði að leggja hann niður sem slíkan og menn geti þá rústað svæðinu með betri samvisku „í sátt við umhverfið“ svo vitnað sé í slagorð fyrirtækisins. Og þar sem HS Orka er ekki aðili að Reykjanesfólkvangi liggur auðvitað beinast við að bæjaryfirvöld í Grindavík græi málið fyrir vini sína.

Og ekki verður verra fyrir Grindavíkurbæ og HS Orku að geta hampað GeoPark-lógóinu til að fegra slæma ímynd í umhverfismálum þegar búið verður að virkja allt sem hægt er að virkja með tilheyrandi náttúruspjöllum.




Skoðun

Sjá meira


×