Skoðun

Jafningjastuðningur og krabbamein

Anna Sigríður Jökulsdóttir skrifar
Þegar fólk greinist með krabbamein tekur lífið óvænta stefnu. Enginn er fyllilega búinn undir þá reynslu, hvorki sá sem greinist né aðstandendur. Kraftur er stuðningsfélag fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur þess. Stuðningsnet Krafts hefur um árabil veitt krabbameinsgreindum og aðstandendum jafningjastuðning. Stuðningsfulltrúar netsins hafa sjálfir greinst með krabbamein einhvern tímann á lífsleiðinni eða eru aðstandendur fólks sem hefur greinst með krabbamein. Umsjónarmaður Stuðningsnetsins er sálfræðingur og hafa stuðningsfulltrúar setið stuðningsfulltrúanámskeið og hljóta handleiðslu sálfræðingsins, auk þess sem þeim er reglulega boðið upp á endurmenntun.

Reynsla þeirra sem gengið hafa í gegnum baráttu við krabbamein, bæði greindra og aðstandenda, er dýrmæt. Jafningjastuðningur hefur þá sérstöðu að koma frá einstaklingum sem hafa þann skilning sem aðeins þeir búa yfir sem staðið hafa í sömu sporum. Slíkum stuðningi er á engan hátt ætlað það hlutverk sem heilbrigðisstarfsfólk sinnir heldur einmitt að vera viðbót. Það getur verið ómetanlegt að tala við einhvern sem hefur gengið í gegnum það sama og maður stendur sjálfur frammi fyrir.

Óskað eftir stuðningi

Þegar sjúkdómur eins og krabbamein bankar upp á vakna ýmsar tilfinningar og mörgum spurningum er ósvarað um sjúkdóminn, meðferðir, áhrif meðferða og óteljandi önnur atriði. Einnig vakna spurningar síðar í ferlinu bæði hjá þeim sem greinst hefur og aðstandendum. Hver og einn tekst á við erfiðleika á sinn hátt en það getur verið gott að ræða við einhvern með svipaða reynslu. Til dæmis um tilfinningar sem oft fylgja krabbameini, áhrif á börn, maka eða aðra í fjölskyldunni, barneignir, fjármál, náin tengsl, kynlíf, um þá þjónustu sem er í boði eða hvað eina sem brennur á fólki. Stuðningsaðilar netsins búa yfir reynslu og upplýsingum sem lúta að flestu því sem getur komið upp á í tengslum við krabbamein. Þannig miðla stuðningsfulltrúar af þekkingu og reynslu og veita stuðning sem byggist á sameiginlegum skilningi og umhyggju.

Fjölskylda og vinir gegna afar mikilvægu hlutverki þegar einstaklingur greinist með krabbamein. Jafningjastuðningur getur nýst hverjum þeim sem heyr baráttu við krabbamein, bæði þeim sem greinst hefur og þeim sem standa honum næst og hvar sem er í ferlinu. Grundvallaratriði er að stuðningur mæti þörfum þeirra sem hans leita. Því er rík áhersla lögð á það í Stuðningsnetinu að fólk fái stuðning frá aðila sem samræmist þörfum þess og væntingum. Sálfræðingur tekur á móti óskum um stuðning og finnur stuðningsaðila fyrir viðkomandi út frá óskum hans og þörfum. Hægt er að óska eftir að fá stuðning til dæmis frá einhverjum af sama kyni, á svipuðum aldri, með svipuð veikindi að baki, sambærileg tengsl við þann sem greinst hefur eða hvað eina í aðstæðunum sem skiptir máli fyrir viðkomandi. Sumir eru að leita eftir upplýsingum um tiltekin málefni en aðrir vilja fá að spjalla við stuðningsfulltrúa án þess að hafa afmarkaðar spurningar. Stuðningur fer fram á því formi sem hentar best, í síma, augliti til auglitis eða um tölvupóst. Landfræðileg fjarlægð ætti þannig ekki að þurfa að standa í vegi fyrir stuðningi á vegum Stuðningsnets Krafts.

Kraftur gefur út handbók, Lífs-Kraft, með hagnýtum upplýsingum fyrir þá sem greinst hafa með krabbamein og aðstandendur. Þar er að finna ýmis bjargráð auk þess sem nokkrir einstaklingar segja frá persónulegri reynslu. Nýverið kom út 3. útgáfa Lífs-Krafts með uppfærðum upplýsingum og nýjum fróðleik. Þessa dagana er kynningarátak í umferð því bækurnar eru á ferð í strætisvögnum borgarinnar. Farþegum gefst því kostur á að glugga í bækurnar á ferð um borg og bý og fletta upp á umfjöllun um fjölmargt sem snertir krabbamein eins og andlega vellíðan, sjálfsmynd, almenn bjargráð við þreytu, kynlíf, fjármál, að slaka á og njóta lífsins og margt fleira.

Ef þú vilt tala við einhvern sem hefur svipaða reynslu af krabbameini að baki endilega hafðu samband í síma 470 2700 eða sendu skilaboð á netfangið kraftur@kraftur.org.

Sálfræðingur tekur á móti beiðnum um stuðning og útvegar stuðningsfulltrúa. Farið er með öll samtöl sem trúnaðarmál.

Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu félagsins www.kraftur.org en þar má einnig sjá myndbönd með reynslusögum stuðningsfulltrúa og Lífs-Kraft.




Skoðun

Sjá meira


×