Skoðun

Að byggja upp öflugt og framsækið skólastarf

Dagný Annasdóttir skrifar
Í öllum skólasamfélögum þarf að leggja sérstaka áherslu á og standa vörð um góða líðan nemenda. Mikilvægt er að skólastjórinn og skólasamfélagið taki af festu á forvörnum til að koma í veg fyrir einelti og á einelti þegar það kemur upp eða ef grunur vaknar um það. Til að það takist verða allir þeir aðilar sem koma að skólastarfinu að standa saman til að móta sem jákvæðastan skólabrag, starfsanda og vinnugleði þannig að nemendum finnist þeir velkomnir í skólann og finni fyrir öryggi.

Starfsmenn skólans þurfa og eiga að stuðla að umburðarlyndi og félagslegri samkennd og bregðast á viðeigandi hátt við öllum nemendum, hvort sem þeir eiga í félags-, náms- eða hegðunarerfiðleikum. Ég tel það meðal mikilvægustu hlutverka skólastjóra að stuðla að þessu og beita sér fyrir skólamenningu sem hefur þessi einkenni. Skóli fyrir alla er afar mikilvæg undirstaða þess að tryggja öllum nemendum jöfn tækifæri á öllum sviðum í námi og félagslífi. Mikilvægt er að allir fái kennslu við hæfi og áhuga og nemandi sé alltaf í brennidepli. Við þurfum að kveikja neista og áhuga nemenda fyrir námi og það gerist ef nemandi finnur fyrir vellíðan og öryggi.

Fjölbreyttir kennsluhættir

Mikilvægt er að bjóða upp á fjölbreytta kennsluhætti sem höfða bæði til getu og áhuga nemandans með sérstaka áherslu á líðan hans. Rannsóknir sýna að fjölbreyttir kennsluhættir styrkja skólastarfið og draga úr erfiðleikum tengdum námi. En auðvitað verður að bregðast við erfiðleikum sem upp koma hverju sinni. Til að þróa fjölbreytta kennslu er mikilvægt að vinna að jákvæðri hegðun, þar sem ein af grundvallarréttindum nemenda eru að hafa vinnufrið í skólanum þannig að þeir geti náð sem bestum tökum á náminu og að kennslan nýtist þeim sem best í framtíðinni. Skapa þarf svigrúm og tækifæri til að auka teymisvinnu og auka samstarf starfsfólks með aukinni faglegri samvinnu.

Skólinn er fyrir alla og allir eiga þar að fá námstækifæri og námsaðstæður sem hæfa þroska, forþekkingu og áhugasviðum og skólastjóri þarf hafa forystu um að móta starfið í þessum anda.

Það eru tveir meginlyklar að uppbyggingu öflugs og farsæls skólastarfs og það eru kennararnir og stjórnendurnir. Rannsóknir og reynslan sýna að það kemur enginn metnaðarfullu skólastarfi til leiðar (og engri þróun í skólastarfi raunar) nema öflugur kennarahópur með sterka sameiginlega sýn. Starfsmannahópur sem tekur mið af grunngildum skólans og býr yfir mikilli kennslufræðilegri hæfni, sem vinnur vel saman sem heild og lærir saman. Skólastjórinn þarf að helga sig því að vera faglegur leiðtogi og gegnir lykilhlutverki í að móta þá lærdómsmenningu sem þarf til að byggja upp öflugt og framsækið skólastarf.

Grunnskólar landsins þurfa á þessum umrótatímum að stíga markvisst skref í stefnumótun og fræðslustarfi til að ná vel til foreldra, standa fyrir jákvæðri rökræðu um foreldraþátttöku og til að hafa bein áhrif á viðhorf foreldra til menntunar og árangurs í skóla. Þannig mun skólinn geta skapað farveg til að nálgast samstöðu um námskröfur, aga og þann ramma sem skólinn og foreldrar geta borið sameiginlega ábyrgð á gagnvart námi og félagslegri umgjörð nemenda. Það er sameiginlegt verkefni heimila og skóla að byggja upp heilsteypta einstaklinga sem geta tekist á við lífið og framtíðina.




Skoðun

Sjá meira


×