Skoðun

Markaðssetning á matvöru má ekki blekkja

Katrín Guðjónsdóttir skrifar
Flestir kannast við að fá ýmsar upplýsingar um matvörur og fæðubótarefni sem vísa til jákvæðra áhrifa þeirra á líkamsstarfsemina. Þessar upplýsingar geta komið fram á umbúðum vörunnar, í auglýsingum og/eða á dreifimiðum. Það getur skipt máli að umræddar upplýsingar eru ekki að koma frá hlutlausum aðilum og því mikilvægt að regluverk varðandi upplýsingamiðlun til neytenda tryggi að þeir séu ekki blekktir.

Það er til að mynda réttur neytenda að fá upplýsingar um innihald matvara samkvæmt lögum en þess utan merkja stundum matvælaframleiðendur vörur sínar með upplýsingum sem ekki er skylt að gera. Slík merking gæti verið „fullyrðing“ sem er skilgreind sem sérhver boðskapur eða framsetning sem gefur til kynna einhverja tiltekna eiginleika matvörunnar. Dæmi: Varan er trefjarík.

Þegar fullyrðing er notuð við markaðssetningu matvara er algengt að verið sé að vísa til þess að matvaran eða innihaldsefni í vörunni hafi jákvæð áhrif á líkamsstarfsemina. Fullyrðingum er þó skipt í tvo flokka, annars vegar næringarfullyrðingar og hins vegar heilsufullyrðingar. Reglugerð Evrópusambandsins um næringar- og heilsufullyrðingar fyrir matvæli var innleidd á Íslandi árið 2010 með reglugerð nr. 406/2010 og tekur hún til þeirra þátta sem lúta að markaðssetningu matvara þegar fullyrðing er notuð.

Næringarfullyrðingar

Ef fram kemur á umbúðum matvöru að hún hafi jákvæða næringarlega eiginleika þá telst það næringarfullyrðing. Slík fullyrðing er til dæmis notuð þegar búið er að minnka eða fjarlægja næringarefni sem ekki eru talin æskileg í miklu magni. Má þar nefna mettaða fitu eða viðbættan sykur. Einnig er hægt að nota næringarfullyrðingar þegar vakin er athygli á því að matvara innihaldi mikið magn af t.d. vítamínum, steinefnum, próteinum og/eða trefjum. Til þess að mega nota næringarfullyrðingar þá þarf umrædd vara að uppfylla ákveðin skilyrði. Dæmi: ef vara er merkt sem „sykurskert“ þá þarf skerðingin á sykurmagninu að vera 30% miðað við sambærilega vöru.

Heilsufullyrðingar

Ef fullyrt er, látið að því liggja eða gefið í skyn að tengsl séu milli heilbrigðis og ákveðinnar matvöru eða eins af innihaldsefnum hennar þá telst það heilsufullyrðing. Dæmi: „Varan X er góð fyrir æðakerfið“ og „efni Y og Z styrkja varnir líkamans og draga úr blóðsykursveiflum“. Hins vegar er óheimilt samkvæmt matvælalögum að eigna matvælum þá eiginleika að fyrirbyggja eða vinna á sjúkdómum manna, hafa lækningarmátt eða vísa til þess háttar eiginleika. Dæmi um ólöglega fullyrðingu: „Efnið C verndar gegn krabbameini“. Það telst þó í lagi að fjalla um hvernig draga megi úr sjúkdómsáhættu ef næg vísindaleg gögn eru fyrir hendi. Dæmi um mögulega leyfilega fullyrðingu: „Efnið C dregur úr líkunum á krabbameini“.

Til að tryggja sannleiksgildi heilsufullyrðingar þarf að sækja um leyfi fyrir notkun hennar til Evrópusambandsins og leggja fram vísindaleg gögn sem styðja það. Í fullyrðingaskrá Evrópusambandsins http://ec.europa.eu/nuhclaims/ má finna lista yfir leyfilegar fullyrðingar og jafnframt þeim sem hefur verið hafnað. Þess utan má nefna að það er ólöglegt að nota meðmæli einstakra lækna eða fagfólks í heilbrigðisþjónustu við markaðssetningu vara. Einnig eru fullyrðingar óleyfilegar sem vísa til meðmæla frá öðrum samtökum en landssamtökum lækna, næringarfræðinga og næringarráðgjafa og góðgerðarsamtaka á heilbrigðissviði.

Frá 14. desember 2012 hefur verið óheimilt að markaðssetja matvæli á Íslandi með heilsufullyrðingum sem búið er að hafna af Evrópusambandinu. Við markaðssetningu matvæla og fæðubótarefna má einungis fullyrða um jákvæða heilsufarslega eiginleika vörunnar svo framarlega sem traust vísindaleg gögn styðja það.

Matvælaöryggisstofnun Evrópu er eini aðilinn sem má meta hvort vísindaleg gögn fyrir hverja heilsufarsfullyrðingu séu fullnægjandi. Óleyfilegar fullyrðingar er hægt að tilkynna til heilbrigðiseftirlits sveitarfélaganna og/eða Matvælastofnunar.




Skoðun

Sjá meira


×