Skoðun

Samstaða um afnám gjaldeyrishafta

Huginn Freyr Þorsteinsson skrifar
Á Íslandi hefur náðst markverður árangur í að vinna úr því efnahagshruni sem varð árið 2008. Helstu hagvísar eru til sannindamerkis um þessa breytingu. Vextir eru 6%, verðbólga um 3%, hagvöxtur nálægt 2%, ríkissjóður nær hallalaus, gengi krónunnar hefur styrkst og ríkið getur fjármagnað sig á erlendum mörkuðum. En þó að þjóðin sé komin langan veg frá því hruni og góður grunnur lagður að lífskjarasókn standa eftir mörg óleyst verkefni, sem munu hafa áhrif á hversu vel okkur mun farnast.

Langstærsta verkefni næsta kjörtímabils er að ná árangri í afnámi gjaldeyrishafta til að ljúka megi því efnahagslega uppgjöri sem varð við fall stóru viðskiptabankanna. Umfang þess er stjarnfræðilegt hvernig sem á það er litið en hagkerfi þrotabúanna losar líklega um 2.700 milljarða króna, sem er rúmlega ein og hálf landsframleiðsla. Ekki er bráð hætta af umfangi þessa hagkerfis og hluti þess er erlendar eignir.

Töf veldur þrýstingi á krónu

Aftur á móti vex stór hluti eignanna og býr sífellt til nýjar „aflandskrónur“ innan hafta eða krónur sem vilja rata aftur til erlendu eigenda sinna og skapa því þrýsting á gengi krónunnar. Því lengur sem það tekur að afnema höftin því meira vex þessi krónueign, sem þýðir að enn meiri þrýstingur skapast á gengi krónunnar. Fyrir utan þessa sístækkandi krónueign eru fram undan gjalddagar orkufyrirtækja í erlendri mynt, afborganir ríkissjóðs og sveitarfélaga á erlendum lánum. Erfitt er að sjá þegar allir þessir þættir leggjast saman að afgangur af vöruskiptum dugi til að standa undir útgreiðslum sem og er gert ráð fyrir að innflutningur eigi eftir að aukast.

Ríkt hagsmunamál

Ef illa tekst til við afnám hafta mun það hafa afdrifaríkar afleiðingar fyrir íslenskt efnahagslíf. Of mikill þrýstingur á krónuna vegna útgreiðslna í erlendri mynt myndi þýða fall hennar. Fyrir heimilin í landinu þýddi fall hennar mikla lífskjaraskerðingu vegna þess verðbólguskots sem fylgdi í kjölfarið. Viðlíka vaxtahækkun við slíkt verðbólguskot, eins og ráðist var í í hruninu, myndi að öllum líkindum endanlega kæfa hagkerfið. Þessi dökka mynd er ekki sett fram til að vekja ótta hjá neinum heldur einungis til að útskýra hversu ríkt hagsmunamál það er að vel takist til við afnám gjaldeyrishafta.

Samstillt átak tryggir árangur

Það er líka full ástæða til að ætla að með samstilltu átaki geti náðst farsæl niðurstaða í afnámi hafta. Í dag starfar þverpólitísk nefnd um afnám hafta en innan þeirrar nefndar hefur verið rík samstaða um þau markmið sem skal hafa að leiðarljósi við ferlið. Þau eru að höftin verða ekki afnumin nema heildræn lausn finnist sem tryggi hagsmuni þjóðarbúsins fyrst og síðast. Slíkt gæti m.a. þýtt samninga við kröfuhafa um skilmála útgreiðslna þar sem krónueignir eru verðfelldar eða skattlagningu við útgreiðslu. Allavega er ljóst að kröfuhafar eru ekki í forgangi þegar kemur að afnámsferlinu heldur einungis það sem tryggir hér fjármála- og gengisstöðugleika. Afnámsferli sem gjaldfellir krónur hér innanlands til að tryggja kröfuhöfum útgreiðslur er misheppnað afnámsferli. Skilningur á þessu atriði tryggir þá nauðsynlegu samstöðu sem þarf til að ná árangri.




Skoðun

Sjá meira


×