Lífið

Iggy & The Stooges með endurkomu

ber að ofan Iggy Pop, að sjálfsögðu ber að ofan, á Bluefest Byron Bay-tónlistarhátíðinni í Ástralíu fyrir skömmu.Nordicphotos/getty
ber að ofan Iggy Pop, að sjálfsögðu ber að ofan, á Bluefest Byron Bay-tónlistarhátíðinni í Ástralíu fyrir skömmu.Nordicphotos/getty
Ready to Die er fyrsta hljóðversplatan sem kemur út undir nafninu Iggy & The Stooges síðan Raw Power leit dagsins ljós árið 1973, fyrir fjörutíu árum.

Auk hins 66 ára forsprakka Iggy Pop spila á plötunni gítarleikarinn James Williamson og trommarinn Scott Asheton. Þeir spiluðu einnig á Raw Power en það er síðasta platan sem þessir þrír spiluðu á saman. Til að fylla í skarð bassaleikarans Ron Asheton, sem lést 2009, var fenginn Mike Watt.

Iggy Pop stofnaði The Stooges í Detroit árið 1967 eftir að hann hafði farið á tónleika með The Doors og orðið yfir sig hrifinn. Iggy, sem heitir réttu nafni James Osterberg, fékk bræðurna Scott og Ron Asheton til liðs við sig og einnig bassaleikarann Dave Alexander og úr varð hljómsveitin The Stooges.

Sveitin vakti fljótt athygli fyrir líflega sviðsframkomu, sérstaklega Iggy Pop. Hann kom alltaf fram ber að ofan og makaði jafnan steikum eða hnetusmjöri á líkama sinn, skar sjálfan sig með gleri og tók dýfu ofan í áhorfendaskarann.

The Stooges gerði plötusamning við stórfyrirtækið Elektra árið 1968 og gaf út samnefnda plötu ári síðar. Platan fékk dræmar viðtökur þrátt fyrir að hafa að geyma lög á borð við 1969, I Wanna Be Your Dog og No Fun, sem eru öll orðin vel kunn í dag. Næsta plata á eftir, Funhouse, sem kom út 1970, fékk engu betri móttökur. Smám saman töpuðu meðlimir sveitarinnar sér í fíkniefnaneyslu, sér í lagi Iggy, og The Stooges lagði nánast upp laupana.

David Bowie kom sveitinni á kortið á ný þegar hann tók upp þriðju plötuna, Raw Power. Þá hafði Dave Alexander helst úr lestinni og í staðinn kom James Williamson, en aftur tókst sveitinni ekki að slá í gegn. Fljótlega eftir það hætti The Stooges endanlega og Iggy Pop hóf vel heppnaðan sólóferil með aðstoð Bowies.

Árið 2003 kom Iggy Pop, sem hafði áður slegið í gegn með lögum á borð við Lust for Life og The Passenger, öllum að óvörum og boðaði endurkomu The Stooges eftir um það bil þrjátíu ára hlé. Fékk hann bræðurna Ron og Scott aftur til liðs við sig en í þetta sinn hljóp Mike Watt í skarðið í staðinn fyrir Dave Alexander. Sveitin fór í tónleikaferð og er enn að. Til að mynda spilaði hún í Listasafni Íslands árið 2006, en tónleikarnir áttu upphaflega að vera í Laugardalshöllinni.

Síðasta plata á undan Ready to Die kom út 2007, hét The Weirdness og var gefin út undir nafninu The Stooges. Hún hlaut misjafnar viðtökur en David Fricke hjá The Rolling Stone er sáttur við nýju plötuna og gefur henni þrjár og hálfa stjörnu. Hann segir hana hráa og kraftmikla með Iggy Pop í hörkuformi.

freyr@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.