Viðskipti innlent

Leysa þarf snjóhengjuvanda

Magnús Þorlákur Lúðvíksson skrifar
Hafsteinn Hauksson
Hafsteinn Hauksson
Er raunhæft að losa gjaldeyrishöftin innan tiltölulega skamms tíma eða er haftalaust samfélag hér á landi einungis fjarlægur draumur? Greiningardeild Arion banka gerði tilraun til þess að svara þessari spurningu á fundi í höfuðstöðvum bankans í gær en í stuttu máli var svarið eins og oft við flóknum spurningum: það veltur á ýmsu.

Á fundinum flutti Hafsteinn Hauksson, hagfræðingur í greiningardeildinni, erindi þar sem hann velti upp fyrrgreindri spurningu. Undir lok erindis síns sagði Hafsteinn: „Það er hægt að teikna upp aðstæður þar sem afnámið getur gerst hratt en það er líka hægt að teikna upp aðstæður þar sem afnámið getur tafist um ókomna tíð.“

Það hvorar aðstæðurnar raungerast sagði Hafsteinn fara að ýmsu leyti eftir ytri þáttum sem Íslendingar hafi ekki stjórn á. Þar skipti mestu til dæmis vaxtaumhverfið og viðskiptakjör landsins. Hann sagði Íslendinga hins vegar hafa stjórn á öðrum þáttum sem skipti afnámsferlið miklu máli en efst á þeim lista væru uppgjör gömlu bankanna.

„Það er lykilatriði að búin verði gerð upp þannig að óþolinmóðum erlendum krónueigendum verði fækkað eins og kostur er. Og það er mjög erfitt að sjá fyrir sér að það sé hægt að neinu marki nema þeir taki á sig einhvern afslátt af kröfum sínum,“ sagði Hafsteinn og bætti við að auk þess væri mikilvægt að endursemja um skuldir Landsbankans og mögulega Orkuveitu Reykjavíkur með það fyrir augum að lengja í greiðsluferlum svo þrýstingur vegna afborgana á gengi krónunnar minnkaði.

Hafsteinn lagði einnig áherslu á að unnið yrði að þessum verkefnum með þannig hætti að tiltrú fjárfesta á íslensku stofnanaumhverfi og efnahagslífi yrði ekki fyrir skaða. Áhættan við afnám hafta væri sú að fjárfestar myndu missa trú á hagkerfinu sem myndi valda gengisfalli, verðbólguskoti, vaxtahækkunum og samdrætti með slæmum afleiðingum fyrir heimili, fyrirtæki og ríkissjóð.

fréttablaðið/vilhelm





Fleiri fréttir

Sjá meira


×