Viðskipti innlent

Nýtt ævintýri viðheldur snerpunni

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Liv Bergþórsdóttir, framkvæmdastjóri Nova, segir 4G svara kalli fólks eftir aukinni þjónustu. Mynd/Valli
Liv Bergþórsdóttir, framkvæmdastjóri Nova, segir 4G svara kalli fólks eftir aukinni þjónustu. Mynd/Valli
„Því fylgir fjöldi áskorana að byggja fyrirtæki upp frá grunni. Margt vann með okkur, við vorum oft heppin, en um leið kom líka upp fjöldi vandamála sem við sáum ekki fyrir. Þannig er þetta bara,“ segir Liv Bergþórsdóttir, framkvæmdastjóri Nova. Einn þröskuldurinn hafi verið að ráða starfsfólk í uppsveiflu ársins 2006.

„Atvinnuleysi var ekkert og við stóðum frammi fyrir því verkefni að laða fólk úr góðum störfum og út í óvissuna með okkur. Þá hringdum við í fólk og auglýstum og sögðumst vera að fara að búa til besta vinnustað í heimi. Þannig verður að vissum hluta til dýnamíkin og stemningin í fyrirtækinu,“ segir Liv. Sá andi hefur haldist og skilar sér greinilega til viðskiptavina en Nova hefur síðustu ár skorað hátt í vinsældarmælingum hjá fólki. „Ég er ekki viss um að tekist hefði jafnvel til ef við hefðum ekki þurft að hafa svona mikið fyrir þessu.“

Þá segir Liv ýmislegt hafa komið á óvart þegar verið var að taka fyrstu skrefin með Nova. „Við héldum til dæmis árið 2007 að símar á borð við Iphone væru bara væntanlegir í næsta mánuði. Við vorum löngu búin að sjá alls konar útgáfur af svona símum á sýningum erlendis, en svo bara skiluðu þeir sér ekki á markað af einhverjum ástæðum,“ segir hún. Þannig varð á fyrstu metrunum örlítið holur hljómur í slagorðinu „stærsti skemmtistaður í heimi“ sem þó hefur lifað með fyrirtækinu, því á endanum komst snjallsímaveislan af stað.

„En þarna var ein birtingarmynd fákeppninnar. Framleiðendur tóku höndum saman með fjarskiptafyrirtækjum um að stýra innleiðingu 3G-tækninnar. Símarnir voru greinilega ekki að skila sér á markað þó svo að öll tækni væri til staðar. Það þurfti því sparkið frá Apple til að koma þessu af stað.“

Samkeppnisumhverfið á Íslandi segir Liv einnig hafa komið á óvart þarna í byrjun. „Okkur óraði ekki fyrir hvernig samkeppnin myndi þróast.“ Hindranirnar sem Nova hafi staðið frammi fyrir endurspeglist í fjársektum sem Samkeppniseftirlitið hafi síðustu ár og misseri lagt á samkeppnisaðila.

„Þetta fyrsta ár var hrikalega erfitt og okkur fannst markaðurinn spilltur,“ segir hún. Mjög erfiðlega hafi gengið að fá keypta farsíma hjá innlendum umboðsaðilum. „Þannig að við neyddumst til að ferðast út um allan heim til að reyna að verða okkur úti um farsíma. Eftir að hafa byggt upp kerfið og þjónustuna óraði okkur ekki fyrir því að við gætum lent í vandkvæðum með að fá keypta síma á samkeppnishæfu verði. Fyrir okkur var þetta með stærri málum árin 2007 og 2008.“

Fjöldi áskorana sem fylgja því að byggja upp fyrirtæki frá grunni auk efnahagsástandsins á Íslandi í árslok 2008, segir Liv að hafi átt sinn þátt í að þjappa saman hópnum sem saman var kominn í Nova. „Við stóðum frammi fyrir því að vera búin að fara í þessa risafjárfestingu og höfðum bara nokkra mánuði til að ná í viðskiptavini og láta þetta ganga upp. Við vorum að spila upp á líf eða dauða. Við lögðum okkur öll fram um að láta þetta ganga og ég held að hver einasti starfsmaður fyrirtækisins hafi orðið ofursölumaður.“

Um leið gagnrýnir Liv hversu langan tíma taki hjá samkeppnisyfirvöldum hér að rannsaka og ljúka málum. „Hægt er að ganga af fyrirtækjum dauðum með samkeppnisbrotum ef þau horfa fram á að fá ekki niðurstöður fyrr en að þremur til fjórum árum liðnum.“

Núna telur Liv þennan slag að baki að mestu. „Flest þessara mála, hvað okkur varðar, eru frá upphafsárum Nova, 2007 og 2008.“

Sektarupphæðir upp á hundruð milljóna þessum árum síðar segir hún að hljóti að letja fyrirtæki til að leggjast út í víðtæk samkeppnislagabrot. „Við vonum að minnsta kosti að ákveðin viðhorfsbreyting hafi átt sér stað.“

Stiklað á stóru í sögu Nova. Smellið á myndina til að sjá hana stærri.
Núna standa fjarskiptafyrirtæki frammi fyrir kerfisbreytingum sem áhrif hafa á tekjustreymi þeirra með nýjum Evrópureglum um svokölluð lúkningargjöld. Liv segir ávallt hafa verið vitað að þessara breytinga væri að vænta og ráð fyrir þeim gert í áætlunum fyrirtækisins. „Ef allir eru með sömu lúkningarverð þá vinnur sá sem er með minnstan tilkostnað. Í framtíðinni verða heldur engin lúkningargjöld. Eins horfa símafyrirtæki fram á að það verði engin mínútuverð, upphafsgjöld eða gjaldtaka eins og hingað til hefur þekkst.“ Þannig eigi gjaldtaka fremur eftir að færast yfir í fastar upphæðir fyrir þá þjónustu sem viðskiptavinurinn kallar eftir. „Okkur er alveg sama hvort viðskiptavinurinn ætlar að hringja eða fara á netið, eða gera eitthvað annað.“

Hingað til hafa áætlanir Nova gengið eftir. Árið 2006 var gerð fimm ára viðskiptaáætlun um uppbyggingu 3G-farsímakerfis á landsvísu og lagt af stað með það. Undirbúningur var um það bil ár og svo var byrjað 1. desember 2007. Liv segir að strax í upphafi hafi verið ljóst að byggja yrði upp stóran hóp viðskiptavina. „En við sáum samt ekki fyrir að þeir yrðu komnir yfir hundrað þúsund eftir fimm ár,“ bætir hún við.

Markaðsplanið hjá Nova segir Liv svo að hafi fæðst smám saman í takt við kannanir sem gerðar voru á væntingum fólks til fjarskiptaþjónustu. „Yngri hópurinn var spenntastur fyrir því að fá netið í símann. Yngri hópurinn er móttækilegri fyrir nýjungum og svo fylgja hinir á eftir.“

Núna eru enn breytingar í farvatninu og Nova í fararbroddi að innleiða 4G-farsímaþjónustu. „Á einhverjum tímapunkti fara símtölin bara yfir netið, því 4G er netkerfi, en viðskiptavinurinn er ekkert að spá í hvaða leið símtalið fer, hvort það er um GSM-, 3G- eða 4G-kerfi.“

4G er háhraða netkerfi fyrir farsíma sem stóreykur alla þjónustumöguleika. „Fólk vill geta tekið sjónvarpið og allt með sér upp í bústað, ekki bara símann. 3G kerfin ráða hins vegar ekki við allt sem fólk vill geta gert, en það munu 4G kerfin gera.“

Liv segir kraft í Nova og hópinn tilbúinn að taka næsta slag. „Það vinnur auðvitað með okkur að vera minni. Við erum í dag 110 starfsmenn og það auðveldar að halda uppi stemningu og eykur samheldni. Svo erum við núna fimm ára og nýr kafli að hefjast hjá okkur með því að vera að fara af stað með 4G. Þetta er svolítið eins og nýtt ævintýri með nýrri áætlun fyrir næstu ár. Við höldum í nýjabrumið og frumkvöðlakúltúrinn í fyrirtækinu. Þetta er svolítið eins og að vera í dótabúð, hér er alltaf eitthvað nýtt og spennandi að gerast.“

Leiðin lá úr smáréttum yfir í snjallsímaþjónustu nútímans
„Nei, það er ofsagt að ég hafi fundið upp á 1944 réttunum," segir Liv Bergþórsdóttir, framkvæmdastjóri Nova, þegar upp á hana er borið að eftir hana liggi ekkert nema góðar hugmyndir og sigrar þar sem hún hefur stigið niður fæti á starfsferlinum. Árangur hennar hjá Nova hefur vakið bæði aðdáun og eftirtekt. Bæði kemur þar til vöxtur fyrirtækisins og velgengni í hörðum slagnum á íslenskum fjarskiptamarkaði og einstakur andi og samheldni sem einkennir Nova sem vinnustað.

Nova fékk fyrr á árinu hæstu einkunn allra fyrirtækja í íslensku ánægjuvoginni og sjálf var Liv fyrir áramót valin markaðsmaður ársins 2012 þegar Íslensku markaðsverðlaunin voru veitt. Raunar hefur Nova fengið verðlaun á þessum vígstöðvum báðum allar götur frá 2009.

Lærði af erlendu samstarfi

Engu er hins vegar logið um að ferilinn hafi Liv hafið hjá Sláturfélagi Suðurlands, sem var valið markaðsfyrirtæki ársins þegar hún var þar á markaðsdeildinni að taka fyrstu skrefin á vinnumarkaði að námi loknu.

„Ég útskrifaðist úr viðskiptafræði og fór svo í ár til London í starfsþjálfun hjá Citibank. Þegar ég kom heim, eins og var á þessum tíma 1994 til 1995, þá voru bankarnir að byrja að breytast og margir nýútskrifaðir fóru í þá, Eimskip og ákveðin fyrirtæki sem voru vinsælust á þeim tíma. Mér bauðst hins vegar starf í markaðsdeild SS og stökk eiginlega bara á þetta fyrsta starf eftir skóla."

Síðar segist Liv hafa gert sér betur grein fyrir því hvað veran hjá SS hafi verið mikilvægur skóli, SS sé til dæmis umsvifamikið á sviði innflutnings og lærdómsríkt hafi verið að starfa með erlendum vörumerkjum á borð við Barilla, Mars og Snickers. „Þarna lærðust manni hlutir sem síðan mátti taka með sér yfir í símageirann," bætir Liv við, en hún tók við starfi markaðsstjóra hjá Tali árið 1998.

„Farsíminn var tiltölulega nýtilkominn, en strax ótrúlega margt sem hægt var að taka með sér úr smásölufræðunum yfir í þennan mjög svo tæknidrifna markað. Til dæmis létum við óskylda hluti, eins og tjald eða bíókort, fylgja farsímanum, en það höfðum við prófað áður hjá SS, þar sem við létum til dæmis vídeóspólur fylgja pylsupökkum. Og það var gaman að taka þátt í þessu á þessum tíma, taka dæmið skrefinu lengra í stað þess að selja bara farsíma út á það hvað mínútan kostaði."

Eins segir Liv hafa verið mikilvæga reynslu þegar Íslandssími og Tal sameinuðust. „Í Tali höfðum við byggt upp sterka liðsheild og fyrirtækið gekk vel. Svo var þetta allt búið á einni nóttu." Fallið var frá því að nota vörumerki Tals og tekið í framhaldinu upp nafnið Vodafone.

„Þá sá maður að vörumerki koma og fara," segir hún, en breytingin var fólkinu hjá Tali nokkuð áfall. „En svo áttuðum við okkur á því að vörumerkið er ekki allt. Við vorum Tal og erum ótrúlega góður vinahópur enn í dag."

Á eftir farsímavæðingu kom snjallsímavæðing

Liv segir að eftir að hún sneri aftur til starfa úr fæðingarorlofi árið 2006 hafi fyrirtækið eðlilega tekið nokkrum breytingum og hún fundið að hún ætti ekki heima í þeim hópi. „Mig langaði til að gera eitthvað allt annað."

Þarna urðu því enn kaflaskipti hjá Liv sem ætlaði að segja skilið við fjarskiptageirann. Þá hafði samband Jóakim Reynisson sem starfað hafði með henni hjá Tali. Þar sá hann um tæknimál og Liv um markaðsmál. Núna var Jóakim að aðstoða Novator við að kanna möguleika á innkomu á íslenskan farsímamarkað, en Novator hafði reynslu af slíkum rekstri, meðal annars frá Búlgaríu.

„Á þessum tíma voru tvö fyrirtæki ráðandi, Síminn og Vodafone. Fákeppni var algjör, verð hækkaði og lítið lagt upp úr þjónustu eða nýjungum á borð við 3G. Ég fór þess vegna með Jóakim í að greina tækifærin hér og eftir þá skoðun vorum við sannfærð um að pláss væri fyrir þriðja aðilann, í raun til þess að gera svipaða hluti og við Jóakim gerðum með Tali 1998. Þá var fólk að fá fyrsta farsímann, en núna var fólk að fá netið í símann."

Þannig hafi verið búið að farsímavæða þjóðina. Núna hafi verið komið að því að snjallsímavæða hana.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×