Skoðun

Eru eftir hár í halanum?

Valgerður Bjarnadóttir skrifar
Hvað eigum við nú til bragðs að taka Búkolla mín? spurði strákurinn kúna þegar þau komu að hinum ýmsu farartálmum. Strákurinn var á leiðinni heim, eftir að hafa sótt Búkollu í fjós skessunnar.

Hvað eigum við nú til bragðs að taka? spyr ég þegar við erum komin vel á veg með að ná þjóðfélaginu úr fjósi sérhagsmunaaflanna og upp sprettur Framsóknarmaddaman. Tví- ef ekki þríefld.

Það er skelfilegt að þeir sem sammála eru um að breyta þjóðfélaginu tvístrist út um allt. Óþolinmæði er afleit í pólitík. Auðvitað voru það vonbrigði að ná ekki að minnsta kosti auðlindaákvæði stjórnarskrárfrumvarpsins í gegnum þingið. En það er lítil von að ná því nokkurn tíma í gegn ef þau sem það vilja hlaupa hvert í sína áttina. Það verður ekkert dekk spúlað með þeirri aðferð. Sérhagsmunaöflin eru þau einu sem munu hagnast ef allt að tíu prósent atkvæða falla dauð vegna þess að nýju flokkarnir ná ekki fimm prósenta lágmarkinu sem þarf til að ná þingsæti.

Sérhagsmunaöflin munu ekki bara hagnast í kosningunum. Þau munu líka hagnast eftir kosningar þegar veiðigjaldið verður afnumið. Veiðigjaldið er 16 milljarðar. Þeim sem greiða veiðigjald finnst það ósanngjarnt. Þeir vilja halda áfram að nýta auðlindina okkar án þess að borga krónu fyrir. Það finnst Framsóknarmaddömunni og vinum hennar í Sjálfstæðisflokknum líka sjálfsagt mál.

Sérhagsmunaöflin geta þá aftur selt sjálfum sér eða vinum sínum banka. Landsbankinn er búinn að gera upp við þrotabúið svo sérhagsmunaöflin geta strax hafið næstu umferð einkavinavæðingar.

Er það virkilega þetta sem við viljum? Er þetta rétti tíminn til að fara hvert í sína áttina? Óþolinmæði hefur löngum verið ógæfa íslenskra jafnaðarmanna. Það virðist ætla að verða svo eina ferðina enn.

Ólíkt skessunni sem varð að steini er hætta á að Framsóknarmaddaman og vinir hennar verði sprellandi kát og þjóðfélagið lendi aftur í sérhagsmunafjósinu. Þá hefur sannarlega ekki verið til mikils barist. Þá mun ekki duga: Taktu hár úr hala mínum!




Skoðun

Sjá meira


×