Skoðun

ESB í höndum upplýstrar þjóðar

Þórður Sveinsson skrifar
Fólk spyr mig gjarnan hver afstaða pírata sé gagnvart ESB. Það er skoðun mín, og margra annarra pírata, að stjórnmálaflokkar eigi ekki að vera með eiginlega afstöðu með eða á móti ESB. Sumir kunna að halda að þannig séum við að forðast þetta gríðarlega mikilvæga mál, en svo er ekki. Á meðal grunngilda pírata er gagnsæi og beint lýðræði.

Gagnsæi snertir málið á þann hátt að allt viðræðuferlið á að vera opið og á almenningur rétt á því að vera vel upplýstur um allt sem því við kemur svo hann geti tekið vel upplýsta ákvörðun. Við viljum veita upplýsingar hvort sem þær eru jákvæðar eða neikvæðar í garð sambandsins. Ef ég veiti þér eftirfarandi upplýsingar: „það er rigning úti og maður verður blautur í henni“ eða „það er sól úti og það er mjög heitt“ þá er ég ekki að segja þér hvort þú eigir að vera inni eða úti heldur er ég einfaldlega að veita þér upplýsingar til þess að þú getir tekið þína eigin upplýstu ákvörðun.

Síðan tekur beina lýðræðið við. Þegar á hólminn er komið, búið að ganga úr skugga um að allar upplýsingar liggi fyrir og almenningi hefur verið gefinn tími til að móta sína skoðun þá er málið sett í bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu.

Það er aftur á móti hlutverk stjórnmálaflokka að vera vel undirbúnir fyrir hvora niðurstöðuna sem er og vita hvað tekur við að þjóðaratkvæðagreiðslu lokinni hvort sem fólkið í landinu segir já eða nei. Þetta mál á fyrst og síðast heima í höndum vel upplýstrar þjóðar og ætla Píratar að sjá til þess að svo verði.


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.