Skoðun

Þegar stjórnmálamaður þegir

Heimir Eyvindarson skrifar
Þegar stjórnmálamaður þegir er hann yfirleitt bara að bíða eftir því að komast að. Sjaldgæfara er að menn hlusti í alvörunni á það sem „andstæðingurinn" hefur að segja.

Björt framtíð vill breyta umræðuhefð íslenskra stjórnmála og hvetur til þess að fólk tali saman af virðingu og láti af skítkasti og níði. Ekkert skítkast er raunar eina kosningaloforð flokksins. Sumum finnst það léttvægt markmið í stjórnmálabaráttu að hvetja til bættra samskipta, en það getur svo sannarlega skipt máli.

Eitt mikilvægasta viðfangsefni næstu ríkisstjórnar verður að finna skynsamlega lausn á skuldavanda heimilanna. Brýnt er að vel takist til og því lykilatriði að allar leiðir sem nefndar hafa verið – og eiga jafnvel eftir að koma fram – verði skoðaðar með opnum huga. Við höfum ekki efni á því að þingmenn þrátti um það fram eftir næsta kjörtímabili hvaða leið skuli fara og hver hafi fattað upp á hverju.

Því miður er það þó svo að allnokkrar líkur eru á að svo verðì. Hversu oft höfum við ekki séð stjórnmálamenn afgreiða tillögur annarra sem argasta bull og þvætting. Án þess að skoða þær að neinu marki.

Hægt að gera betur

Leiðtogar fráfarandi ríkisstjórnar hafa verið fastir í þessu gamla stjórnmálafari og iðulega skellt skollaeyrum við ábendingum sem ekki koma úr þeirra ranni. Þeim hefði til að mynda betur borið gæfa til að hlusta á þá sem bentu á augljósa galla 110% leiðarinnar, sem kostaði í kringum 50 milljarða og gagnaðist fáum. Nema lánastofnunum, því með henni var tryggt að fólk sem hefði kannski betur látið stofnununum eftir eignir sínar gat haldið áfram að borga. Um stund.

Ekki var heldur hlustað á þá sem bentu á nauðsyn þess að setja þak á verðbætur. Þess vegna eru þær skuldir sem færðar voru niður í 110% markið að nálgast fyrra horf. Jafnvel gott betur. Flöt 20% leiðrétting hefði vitanlega farið sömu leið, ef gripið hefði verið til þess ráðs án þess að þaksetja verðbætur.

Það er ljóst að hægt er að gera betur í að laga stöðu heimilanna. Bankarnir stefna hraðbyri inn í nýtt góðæri og geta hæglega komið betur til móts við lántakendur. Staða Íbúðalánasjóðs er hins vegar öllu verri, en einhvern veginn verður samt að koma til móts við þá sem eiga lán sín þar. Það er hins vegar engin lausn að færa niður skuldir en breyta í engu umhverfinu sem við búum við.

Fyrsta skrefið er að tala saman. Hlustum á hvert annað með opnum huga. Það gildir einu hvaðan góðar hugmyndir koma.




Skoðun

Sjá meira


×