Innlent

Áhrif sinubruna ekki teljandi snemma árs

Svavar Hávarðsson skrifar
Fuglar eiga það til að sækja í brennd svæði því auðveldara er fyrir þá að ná sér í grastuggu þegar sinan er brunnin burt. fréttablaðið/pjetur
Fuglar eiga það til að sækja í brennd svæði því auðveldara er fyrir þá að ná sér í grastuggu þegar sinan er brunnin burt. fréttablaðið/pjetur
Allstór sinubruni varð í Vatnsmýrinni á sunnudag og sina brennur víða um land. Þannig börðust í gær 30 slökkviliðsmenn og þyrla við sinueld í Lundareykjadal í Borgarfirði, en tök náðust ekki á honum fyrr en undir kvöld.

Fuglafræðingur segir að áhrif á fugla séu lítil sem engin á þessum tíma, enda margar tegundir ekki komnar til landsins og varp ekki hafið. Sinubrunar geta hins vegar haft áhrif á sumar tegundir fugla sem sækja á sama varpsvæðið ár eftir ár.

„Algengustu mófuglarnir eru ekki komnir til landsins svo skaði af sinueldum er ekki teljandi. Hins vegar eru mófuglar, eins og lóur og spóar, tryggir átthögum sínum; sömu varppörin koma á sömu svæðin ár eftir ár. Ef sinubrunar eru umfangsmiklir þá geta þeir rýrt möguleika fuglanna á hentugum hreiðurstað. En í lok mars er ekki hægt að skilgreina sinubruna sem stórt vandamál fyrir fuglana," segir Gunnar Þór Hallgrímsson, fuglafræðingur og forstöðumaður Náttúrustofu Suðvesturlands.

Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu var kallað út í fyrrinótt vegna mikils sinubruna í grennd við Öskju og Norræna húsið í Vatnsmýrinni. Töluverðan tíma tók að ráða niðurlögum eldsins og brann nokkur hundruð fermetra svæði. Fréttir eru einnig af sinubrunum víða á Suðurlandi undanfarna daga; undir Eyjafjöllum og víðar.

Gunnar segir að frá byrjun maí sé annað upp á teningnum því þá fara fyrstu fuglarnir að gera sig líklega til varps; um miðjan mánuðinn fari svo fyrstu eggin að detta.

Hvað stað eins og Vatnsmýrina varðar, en þar halda fuglar sig lengi á afmörkuðum stað, segir Gunnar að þar geti áhrifin verið meiri, til dæmis rýri sinubruni möguleika fuglanna til að hyljast.

„En þegar brennur þá getur það verið til bóta fyrir ýmsar tegundir, tímabundið alla vega. Ástæðan er að undir sinunni er græna grasið og fuglar, eins og gæsin, sækja í nýgræðinginn sem þá er aðgengilegri," segir Gunnar.

Gunnar tekur dæmi af stóra sinubrunanum á Mýrum árið 2006. „Fyrst eftir brunann var meira af fugli inni á brunna svæðinu en í kring, sennilega vegna meira fæðuframboðs og á það líka við um smádýralíf."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×