Skoðun

Valdið færist til

Jón Ormur Halldórsson skrifar
Flestum sem fá pólitísk völd virðist koma á óvart hvað erfitt er að beita þeim til gagns. Þetta er ört að versna en er þó ekki nýtt. Möguleikar stjórnmálamanna til að ráða niðurstöðum með því valdi sem þeim er gefið hafa alltaf verið minni en mönnum er títt að ætla. Nákvæmar greiningar á liðnum atburðum leiða í ljós að viðtekin söguskoðun er oft byggð á miklum einföldunum. Samhengið á milli þess sem ráðandi menn vildu og þess sem varð er oftast flóknara og minna en viðtekin saga gefur til kynna.

Leikritið

Glöggir og hreinskilnir stjórnmálamenn í öllum álfum heimsins kvarta undan þessu máttleysi sín á milli, ekki síst við útlenda kollega. En einn er sá hópur sem stjórnmálamenn ræða þó ekki við um þessi vaxandi vandræði. Það eru kjósendur. Ástæðan fyrir því er einfaldlega sú að gagnvart kjósendum verða stjórnmálamenn að sýnast þess megnugir að breyta því sem þeir lofa að breyta. Leikrit stjórnmálanna byggist á því. Kjósendur kvarta jafnan hástöfum undan litlum efndum en krefjast um leið nýrra loforða.

Uppákomur og refir

Allir sem hafa farið með pólitísk völd þekkja hvernig uppákomur og óvænt rás atburða taka frá þeim frumkvæði og fylla dagskrá þeirra af vandræðum. Þetta hefur verið hlutskipti ríkisstjórna alla tíð. Því óvæntari og stærri sem uppákomurnar eru, því meira eru refir stjórnmálanna á heimavelli og hugsjónamenn á útivelli. Þetta er ein ástæða þess hve lítið samhengi er á milli fyrirheita og niðurstöðu í stjórnmálum. Nýleg þróun hefur enn frekar rofið þetta samhengi.

Stærri veruleiki

Þjóðfélög eru sífellt að verða flóknari og þau eru líka að verða miklu opnari. Fyrirheit um innlend efnahagsmál eru hvergi mikils virði án viðurkenningar á ytri veruleika. Hugmyndir um að sniðganga veruleikann eru á meðal þeirra hættulegustu í stjórnmálum en sérlega vinsælar á krepputímum eins og sjá má í nokkrum illa settum löndum í Evrópu. Hinn ytri veruleiki verður sífellt flóknari og viðkvæmari með samtengingu atvinnulífs jarðarinnar og ört vaxandi samþættingu allra hluta um víða veröld. Stjórnmálamenn allra landa glíma í reynd við það sama. Aðlögun að veruleika sem er utan þeirra eigin áhrifa.

Máttur spurninga

Til viðbótar hefur átt sér stað tilfærsla á valdi innan samfélaga sem er ekki síður söguleg en að mestu ótengdir flutningar valds frá vestri til austurs og norðri til suðurs í heiminum. Innan samfélaga nær hún allt frá heimilum fólks til mestu miðstöðva pólitísks, efnahagslegs og menningarlegs valds. Valdið færist frá körlum til kvenna, frá valdakerfum til upplýstra manna, frá stórfyrirtækjum til kunnáttusamra einstaklinga, frá hervaldi til mjúkra áhrifa, og frá þeim sem þykjast vita til hinna sem kunna að spyrja.

Samhengið

Öll stjórnmál eru staðbundin sagði gamall refur í Ameríku. Þetta þykir satt um allan heim og er það líka svo langt sem það nær. En það nær ekki langt. Pólitík er í kreppu vegna þess að veruleikinn er ekki lengur staðbundinn þótt pólitíkin sé það. Tilraunir til að láta sem hann sé staðbundinn kosta menn sýn á samhengi og skilning á sínum eigin aðstæðum. Menn taka óafvitandi á hverjum degi þátt í hnattrænum samræðum hvort sem þeir ræða samfélagsmál, menningu, atvinnulíf eða pólitík, þótt þeim sýnist oft staðbundinn angi hins almenna vera mjög sérstakur. Það er oftar persónugerð umræða frekar en eðli málsins sem hefur staðbundin sérkenni.

Staðsetning valdsins

Það er eitt lán hinna minni að uppsprettur valds er síður en áður að finna í eiginlegu afli og æ meira í þátttöku ríkja, hópa og einstaklinga í aragrúa af alls kyns netum sem tengja saman um allar jarðir þá aðila sem hvert mál varðar. Þessi net eru af ólíkasta tagi. Mörg eru formleg og fleiri þó óformleg. Sum tengja saman embættismenn, sum baráttufólk í pólitík, önnur athafnamenn eða þá nörda. Áhrif aflminni ríkja á eigin örlög fara sífellt meira eftir því hvernig þau tengja sig öðrum og nýta þau tengsl.

Heimur að mýkjast

Sú hugsun að menn passi best upp á eigin hag með því að sitja heima og loka sínum dyrum er því ekki aðeins sérlega óaðlaðandi á spennandi tímum heldur einnig líkleg til að gera menn veika í glímum við þann veruleika sem er að birtast í okkar heimi. Valdið í heiminum er að mýkjast og dreifast. Það byggir minna á styrk en áður og meira á aðdráttarafli hugmynda og siða. En menn þurfa að vera með til að passa upp á sinn eigin heim.

Ábyrgðin

Af öllum þessum ástæðum ættu menn ekki að láta kosningar, þetta svolítið deiga verkfæri lýðræðisins, snúast um einstök mál. Þau munu hvort sem er öll fá annan endi en lofað er. Heldur ættu menn að spyrja um almenn leiðarljós fólks og flokka í þeim þétta skógi af sífellt flóknari og óvæntari álitaefnum sem fram undan er. Það skiptir kjósendur meira máli að vita hvar þeir hafa menn, svona almennt talað, en að heyra um einstaka drauma þeirra. Nákvæm fyrirheit lenda fljótt í fjallháum bunkum svikinna kosningaloforða. Almenn afstaða ræður hins vegar hvernig menn vinna úr flóknum og óvæntum málum.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×