Viðskipti innlent

SA og Viðskiptaráð ekki í eina sæng Viðræður um stofnun nýrra atvinnurekendasamtaka á grunni þeirra eldri runnu út í sandinn fyrir áramót.

Magnús Þorlákur Lúðvíksson skrifar
Grímur Sæmundsen
Grímur Sæmundsen
Viðræður um nánara samstarf Samtaka atvinnulífsins (SA), Viðskiptaráðs og annarra samtaka atvinnurekenda runnu út í sandinn skömmu fyrir áramót. Lauk viðræðunum án niðurstöðu en ekki er útilokað að þær verði hafnar að nýju síðar á þessu ári.

„Það fóru fram viðræður á síðasta ári um þá hugmynd að stofna ný atvinnurekendasamtök á grunni þeirra eldri. Hins vegar var ákveðið að láta gott heita í bili en svo verður þráðurinn kannski tekinn upp síðar sjái menn fyrir sér að það geti verið árangursríkt,“ segir Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa lónsins, sem var annar fulltrúa SA í viðræðuhóp vegna málsins.

Fréttablaðið greindi frá því í maí í fyrra að þreifingar hefðu átt sér stað milli hagsmunasamtaka íslensks atvinnulífs um að taka upp nánara samstarf en tíðkast hefur og ná fram hagræðingu í rekstri hinna margvíslegu samtaka sem fyrirtæki í landinu greiða félagsgjöld í.

Fyrst um sinn tóku öll sjö aðildarfélög SA, Viðskiptaráð, Félag atvinnurekenda, Bílgreinasambandið og Kaupmannasamtök Íslands þátt í óformlegum viðræðum um nánara samstarf. Í haust hófust svo formlegar viðræður milli SA og Viðskiptaráðs um að búa til ný samtök á grunni þeirra eldri.

Í formlegum viðræðuhópi vegna þessa, sem var kallaður VÍSA-hópurinn, áttu sæti tveir stjórnarmenn í SA; Grímur Sæmundsen og Birna Einarsdóttir, forstjóri Íslandsbanka, og tveir stjórnarmenn í Viðskiptaráði; Katrín Olga Jóhannesdóttir, starfandi stjórnarmaður Já, og Eggert B. Guðmundsson, forstjóri N1. Þá tók Margrét Guðmundsdóttir, þáverandi formaður Félags atvinnurekenda, þátt í viðræðunum um tíma.

Grímur segir að þótt þátttakendur hafi orðið sammála um að gera hlé á frekari viðræðum séu margir enn áhugasamir um breytingar á atvinnurekendasamtökunum. „Það eru margir áhugasamir um þetta en svo eru auðvitað aðrir sem eru íhaldssamari og sjá ekki endilega kosti þess að stofna ný samtök,“ segir Grímur og bætir við: „Það hafa hins vegar orðið miklar samfélagsbreytingar í landinu á þeim fimmtán árum sem eru liðin frá því að SA var stofnað og markmiðið er að samtökin endurspegli samfélagið,“ segir Grímur. „Okkur þótti líka styrkja þennan málflutning úttekt sem við létum gera á því hvað er verið að setja mikla fjármuni í rekstur atvinnulífssamtaka á Íslandi árlega. Reyndust það vera ríflega 100 milljónir á mánuði. Ég tel því klárlega sóknarfæri til hagræðingar og betri nýtingar fjármuna.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×