Skoðun

Af því ég er fötluð

Embla Ágústsdóttir skrifar
Ég tilheyri samfélagi þar sem staðlaðar ímyndir um flesta hópa samfélagsins eru ríkjandi í allri umræðu. Þetta á sérstaklega við um hópa sem flokkast til minnihluta, ýmist með tilliti til fjölda eða valds. Einn af þessum hópum er hópur fatlaðs fólks sem vill svo skemmtilega til að ég tilheyri.

Vegna þess að ég tilheyri þessu ofangreinda samfélag vil ég taka ábyrgð og gera hér stuttlega grein fyrir þeim afleiðingunum sem staðalímyndir hafa á mitt daglega líf. Þetta eru dæmi um það hvernig skerðing mín er álitin forsenda alls þess sem ég er eða geri.

Ef ég á ekki vini, er það vegna þess að ég er fötluð…

Ef ég á vini, er það vegna þess að vinir mínir eru svo góðir við mig þrátt fyrir að ég sé fötluð…

Ef ég stend mig illa í skólanum, er það vegna þess að ég er fötluð…

Ef ég stend mig vel í skólanum, er það vegna þess að fatlað fólk er svo samviskusamt og svo miklar hetjur…

Ef ég er löt, er það vegna þess að ég er fötluð og hlýt að eiga svo bágt…

Ef ég er rosalega dugleg, er það vegna þess að ég er fötluð og er þar af leiðandi algjör hetja…

Ef ég reyki, er það vegna þess að ég er fötluð og lífið mitt er svo erfitt…

Ef ég reyki ekki, er það vegna þess að fatlað fólk er skynsamt og reykir ekki…

Ef ég á ekki maka, er það vegna þess að ég er fötluð…

Ef ég á maka, er ég rosalega heppin að einhver vilji mig „þrátt fyrir að ég sé svona“…

Ef ég hætti með makanum, er það vegna þess að sambandið gekk ekki upp því ég er fötluð…

Ef ég gifti mig, fær maki minn líklega fálkaorðuna fyrir að vera svona stórhjartaður að giftast fatlaðri konu…

Ef ég skil við makann, er það vegna þess að ég er fötluð og þetta var of mikið álag…

Ef börnin mín verða óþekk, er það vegna þess að ég er fötluð og þau eru undir svo miklu álagi…

Ef börnin mín verða þæg, er það vegna þess að ég er fötluð og þau hafa „þurft að þroskast svo hratt“…

Ef börnin mín gleyma heimanáminu fyrir skólann, er það vegna þess að þau eiga fötluðu mömmuna…

Ef börnin mín gleyma aldrei heimanáminu, er það vegna þess að þau eru sjálf svo ábyrgðarfull af því þau eiga fatlaða mömmu…

Ef ég er leið, er það vegna þess að ég er fötluð og það hlýtur að vera ömurlegt…

Ef ég er hamingjusöm, er það vegna þess að ég hef lært að sjá það góða í lífinu „þrátt fyrir að vera fötluð“…

Það skiptir í raun litlu máli hvað ég geri. Í langflestum tilfellum er litið svo á að ég geri það „vegna þess að ég er fötluð“ eða „þrátt fyrir að vera fötluð“.

Ég þrái að geta gert og verið eitthvað án þess að það sé sjálfkrafa álitið snúast eingöngu um fötlun mína. Ég þrái að geta staðið mig illa í skólanum bara af því að ég er löt og ég þrái að geta átt vini án þess að vinskapurinn sé álitinn góðgerðarstarfsemi vina minna.

Ég þrái að fá að vera bara Embla, ekki alltaf „fatlaða Embla“.
Skoðun

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.