Skoðun

Vinna þarf til baka kjaraskerðingu

Helga Ingólfsdóttir skrifar
Nú stendur yfir rafræn kosning til stjórnar og formanns VR. Ég býð mig fram til setu í stjórn VR vegna þess að ég vil taka þátt í að vinna til baka þá lífskjaraskerðingu sem launafólk hefur orðið fyrir eftir efnahagshrun sem hefur skert kaupmátt verulega og á sama tíma aukið skuldir heimilanna.

Mikilvægt er að þeir sem taka að sér að vera í forsvari fyrir félagið vinni af einhug fyrir félagsmenn sína og stærsta verkefnið fram undan er að bæta kjör félagsmanna með aðgerðum sem tryggja varanlegan kaupmáttarauka.

Meðallaun eru ekki viðunandi og lágmarkslaun algjörlega óviðunandi. Á næstu árum þarf að tryggja launþegum bætt kjör þegar efnahagslífið réttir úr kútnum og stíga fast til jarðar til þess að gæta áunninna réttinda og ná fram leiðréttingu á þeirri skerðingu sem félagsmenn hafa orðið fyrir.

Stærsta misrétti milli kynjanna í dag felst í því að karl og kona fái ekki sömu laun fyrir sömu vinnu. Margt gott hefur áunnist í þeim málaflokki en samt sem áður er óskilgreindur launamunur milli kynjanna enn til staðar. Þetta misrétti sem er til staðar þrátt fyrir lagasetningu og góð fyrirheit er hægt að leiðrétta en það krefst vinnu og aðgerða.

Ég tel að verkefni VR, Jafnlaunavottun, muni hafa þar mikil áhrif og ég fagna því frumkvæði sem félagið hefur tekið í þessu máli á vinnumarkaði.




Skoðun

Sjá meira


×