„Ég byrjaði að skrifa þessa bók sem ádeilu á sjálfshjálparbækur en þegar ég var kominn af stað féll ég á eigin bragði og fór að velta fyrir mér hversu vel manni gengur í lífinu ef maður er byrjaður að prumpa glimmeri,“ segir Daníel Geir Moritz.
Hann gefur út sína fyrstu bók í dag en bókina segir hann vera lauflétta sjálfshjálparbók og meginmarkmið bókarinnar sé fyrst og fremst að fá lesandann til að brosa. „Ég hef mikinn áhuga á sjálfsrækt og sjálfsmynd en í bókinni tala ég almennt um lífið, álit annarra og jafnvel bleika fíla. Ég skrifaði bókina í Powerpoint og því er þetta svokölluð flettibók með stuttum texta á hverri síðu.“
Daníel Geir verður með útgáfuteiti í kvöld í Stúdentakjallaranum þar sem hann mun lesa upp úr bókinni. Auk þess koma Jónas Sigurðsson, Birgir Örn Steinarsson (Biggi Maus) og hljómsveitin Ylja fram á tónleikum í Stúdentakjallaranum í kvöld. Teitið er opið öllum og hægt verður að nálgast bókina á tilboðsverði.-mmm
Grínari gefur út lauflétta sjálfshjálparbók
