Skoðun

Eru Vinstri græn græn?

Guðmundur Örn Jónsson skrifar

Nú berast fréttir af því að magn koltvísýrings í andrúmsloftinu sé komið yfir 400 ppm en það gerðist síðast fyrir milljónum ára. Í sjálfu sér er ekkert merkilegt við 400 ppm annað en að þetta er heilt hundrað. Aftur á móti er merkilegt að Vinstri græn sjá enga ástæðu til þess að láta í sér heyra við tilefnið.

Helstu hætturnar sem steðja að mannkyninu eru tengdar umhverfismálum. Við þekkjum gróðurhúsaáhrifin en jarðvegseyðing er ekki minna vandamál. Stórfenglegasti menningararfur Íslendinga er líklegast heimsmet í jarðvegseyðingu, en það þarf jarðveg (mold) til að rækta megnið af þeirri fæðu sem við mennirnir neytum. Nú hnignar um 90% lands á jörðinni samkvæmt Sameinuðu þjóðunum og stefnir það fæðuöryggi mannkyns í hættu.

Sem umhverfisverkfræðingur hjá varnarliðinu kom það í minn hlut að græða upp svæðið kringum Keflavíkurflugvöll. Það hafði verið friðað fyrir beit áratugum saman en tók þrátt fyrir það engum framförum og var jafn gróðursnautt sem fyrr. Sáning grass og áburðar virkaði einungis í eitt til tvö ár en að því loknu byrjaði grasið að hörfa. Lúpínan virkaði aftur á móti vel. Hún fór hægt af stað en u.þ.b. fimm árum síðar var komin samfelld þekja sem í var plantað víði, birki og greni sem döfnuðu vel. Með aðstoð lúpínunnar var því hægt að byggja upp kjarr á u.þ.b. áratug, sem líklegast hefði tekið náttúruna sjálfa margar aldir.

Það er því vægast sagt öfugsnúið að eitt af helstu stefnumálum VG er ekki barátta gegn lausagöngu búfjár heldur barátta gegn lúpínu, þeirri plöntu sem hefur gert hvað mest í að byggja upp jarðveg, vinna gegn gróðurhúsaáhrifunum og græða upp Ísland á seinustu áratugum. Það gera þeir í nafni líffræðilegrar fjölbreytni, þótt grætt sé upp líflaust land sem forfeður okkar eyddu. Einu haldbæru rökin gegn lúpínunni eru þau að hún fer stundum yfir berjalyng. Fullt af fólki hefur miklar áhyggjur af stóru umhverfismálunum sem snúast um lífsskilyrði afkomenda okkar. Á meðan virðist eitt helsta baráttumál Vinstri grænna vera að berjalyng sé ætíð í göngufæri. Til að auðvelda raunverulegum umhverfisverndarsinnum að keppast um hylli kjósenda ættu Vinstri græn því að viðurkenna að þau hafa lítinn áhuga á umhverfismálum og breyta nafni flokksins eða sameinast öðrum framsóknarmönnum. Annars eru þau orðin helsta hindrunin fyrir því að íslenskir kjósendur geti kosið sjálfbæra þróun.




Skoðun

Sjá meira


×