Skoðun

Almannavæðing

Benjamin Julian skrifar
Ríkisrekstur er prýðilegt dæmi um sjálfheldu. Þegar hið opinbera hefur tekið að sér rekstur stofnunar á borð við banka eða fjölmiðil eru fáir tilbúnir að færa reksturinn aftur frá ríkinu, þrátt fyrir þá spillingu og vanhæfni sem fylgir ríkisrekstri.

Almenningur vantreystir einkavæðingu af sömu ástæðu og tilefni væri til hennar: vegna spillingar. Þar sem uggur gagnvart einokun einkaaðila er meiri en gagnvart einokun ríkisins – við erum svo vön henni – er meiri ótti við spillta einkavæðingu en spillingu í opinberri stofnun. Eftir sitjum við með ríki sem enginn vill að láti af völdum sem við vitum þó að það misnotar.

Við erum þó ekki milli steins og sleggju. Í stað einkavæðingar mætti almannavæða ríkisstofnanir. Það er hægt að gera á tvo vegu.

Önnur leiðin væri að breyta þeim í félög þar sem félagsgjöldin eru reiknuð á sama hátt og skattgreiðslur nú. Allir meðlimir hefðu jafnan kosningarétt um málefni félagsins og gætu sagt eða selt sig úr því ef þeir vilja.

Þessi leið myndi henta fyrir ríkisstofnanir sem nú skila tapi, til dæmis Ríkisútvarpið. Hin leiðin væri að breyta þeim í eins konar hlutafélag. Arður yrði greiddur út eftir reglum félagsins, sem kjósa mætti um á fyrsta aðalfundi. Hver hluthafi – hver borgari, til að byrja með – fengi jafnan atkvæðisrétt, óháð hlutstærð. Þessi leið myndi henta fyrir banka. Í leiðinni yrði dreifð eign og stjórn á bönkunum tryggð.

Með þessu fyrirkomulagi væru stofnanirnar enn undir sama hatti lýðræðis og þær eru núna, þar sem atkvæðisréttur fer ekki eftir auðlegð, með þeirri viðbót að hægt væri að segja eða selja sig úr félaginu. Ítök almennings í opinberum stofnunum yrðu þá mikið sterkari, enda eru þau núna engin. Venjulegu mótbárunni um að beinna lýðræði leggi óþarfa vinnu á hendur almennings er auðsvarað. Enginn þarf að mæta á aðalfundinn.

Enn fremur hafa allir Íslendingar aðgang að tölvum og netinu. Við kjósum enn til Alþingis með aðferðum ekki alls ólíkum þeim í borgríkjum Grikklands hins forna. Rafrænar kosningar bjóða mikið svigrúm til bóta. Með auknum ítökum almennings í stofnunum landsins væri einhver von til að nýta það.




Skoðun

Sjá meira


×